137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:10]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir framsögu hennar hér og ræðu. Hér er ágreiningur um fyrirvarana, hvort þeir taki gildi eða ekki, og er búið að leggja fram margar breytingartillögur til að skerpa á þeim fyrirvörum sem um ræðir.

Nú vill svo til að í fyrirvörunum er einungis tekið til þess að ríkisábyrgðin taki gildi frá 5. júní 2016, eftir þetta sjö ára skjóltímabil sem hæstv. fjármálaráðherra ræddi svo mikið um við 1. umr., að við værum í sjö ára skjóli þar sem við þyrftum ekki að byrja að greiða samninginn fyrr en eftir sjö ár. Þessir fyrirvarar og frumvarpið ganga í raun og veru út á að ábyrgðin taki einungis gildi frá og með sama degi, frá greiðsludegi. Mig langar að spyrja þingmanninn: Í 12. gr. breska samningsins og 11. gr. hollenska samningsins eru ítarleg vanefndaákvæði í ellefu liðum og eru þau mjög íþyngjandi fyrir Íslendinga og íslenska ríkið og má þar lítið út af bera svo að þau verði virk. Þegar einhver af þessum ellefu vanefndaákvæðum verða virk má tafarlaust gjaldfella samninginn í heilu lagi.

Því vil ég spyrja þingmanninn í framhaldi af þessu: Hvernig lítur hún á það ef Bretar og Hollendingar gjaldfella samninginn innan sjö ára? Fellur ríkisábyrgðin þá niður jafnframt og gætu Hollendingar og Bretar ekki séð sér hag í því að gjaldfella samninginn tafarlaust þar sem fyrirvararnir eru þá ekki gildir fyrr en að sjö árum liðnum?