137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans. Það var eitt sem vakti athygli mína og það var að hann minntist á að ef tillögur Vinstri grænna og Samfylkingarinnar hefðu verið samþykktar værum við núna í Icesave-málinu að borga um 400 milljörðum meira. Ég set nú fyrirvara við þessa fjárhæð vegna þess að ef ég man það rétt gengu þessar tillögur einfaldlega út á það að það væri ríkisábyrgð og meiri hlutinn er einmitt að samþykkja Icesave eins og það sé ríkisábyrgð fyrir samningnum.

Ég held því að þetta sé kannski ekki alveg rétt en mig langaði til þess að fá viðbrögð við þessu. Erum við að tala um 400 milljarða, hvorki meira né minna?