137. löggjafarþing — 58. fundur,  27. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu, sem að mörgu leyti var málefnaleg en þó ekki að einu leyti. Mér þótti það nokkuð ósanngjarnt hjá hv. þingmanni að vera að kvarta undan því að ráðherrar væru ekki hér við umræðuna. Hér er utanríkisráðherra sem kemur líka að þessu máli. Þarna er hæstv. fjármálaráðherra.

Það er ekki hægt að halda því fram að þeir ráðherrar sem hv. þingmaður telur að beri mesta ábyrgð á málinu hafi ekki tekið þátt í umræðunni. Við erum núna stödd í 3. umr. Meginbreytingarnar á frumvarpinu voru samþykktar í lok 2. umr. Í þeirri umræðu tóku þátt bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Við þá umræðu komu fram skoðanir beggja þeirra ráðherra, og reyndar fleiri ráðherra, á þeim meginbreytingum sem gerðar voru við þá umræðu þannig að ég tel að þetta sé ekki sanngjarnt hjá hv. þingmanni.

Að því er víkur síðan að Samfylkingunni liggur það alveg ljóst fyrir að við styðjum þann málflutning sem kom fram hjá talsmanni Samfylkingarinnar í þessu máli, sem er hv. þm. Guðbjartur Hannesson, nú þegar það er komið í hendur þingsins. Sömuleiðis styðjum við þær breytingar sem fram hafa komið, það liggur alveg ljóst fyrir og ég þarf ekki að orðlengja neitt frekar um það. Það er töluverður munur á því ef ráðherrar koma ekki í umræðu um meginbreytingar eins og fóru fram við 2. umr., eða núna. Það liggur fyrir hvernig breyta á frumvarpinu, það var rætt að mestu leyti þá. Síðan hefur verið hert á ýmsum fyrirvörum. Ég tel ekki að það séu róttækar eðlisbreytingar á því sem núna liggur fyrir efnislega í formi tillagna miðað við 2. umr., þannig að að því leyti til þótti mér hv. þingmaður taka ómálefnalega til máls. Að öðru leyti var hans ræða hin prýðilegasta.