137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þeir efnahagslegu fyrirvarar sem við erum að fjalla um ganga út á það að þjóðin greiði ákveðið hlutfall af vexti landsframleiðslu, þ.e. af hagvextinum frá 2008. Hugsunin var sú að miðað við þær forsendur sem Seðlabankinn gaf sér yrði reiknað út hvaða prósentu af þessari aukningu hagvaxtar þyrfti að greiða til að við greiddum alla skuldina — ef það yrði hagvöxtur. Niðurstaðan varð 3,85% gagnvart Bretum og 1,94% gagnvart Hollendingum. Í þeirri miklu baráttu sem hinn veiki og viðkvæmi meiri hluti Alþingis átti í við ríkisvaldið um að ná fram breytingum á þessum hræðilega samningi með því að takmarka ríkisábyrgðina var fallist á að nota 4% og 2%. Ég virði það samkomulag en get ekki greitt því atkvæði vegna þess að mér finnst skynsamlegra að nota þær tillögur sem hér eru lagðar til. Því sit ég hjá.