137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:44]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Hæstv. forseti. Eins og komið hefur ágætlega fram í umræðu um þetta mál hafa þeir fyrirvarar og skilyrði sem Alþingi vill setja ríkisábyrgðinni verið geirnegldir inn með þeim breytingartillögum meiri hlutans sem hér liggja fyrir. Því er rangt að halda því fram að með þeim fyrirvörum sé verið að blekkja almenning. Það stendur ekki til og hefur ekki staðið til og vonandi verður það ekki svo í framtíðinni heldur.

Hér er á ferðinni tillaga sem er í rauninni ekkert annað en skilgreining, frekari skilgreining á því hvað átt er við með viðráðanlegri fjárhagsbyrði. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni áðan er þess getið í greinargerð meiri hlutans þar sem hún liggur fyrir og þar er um að ræða túlkun á því ákvæði í lögunum sem ríkisábyrgðinni eru sett. Það er gott, en ég greiði hins vegar ekki þessari tillögu atkvæði mitt.