138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er oft sem það kemur fyrir, og ekki ætla ég að gera athugasemdir við það, að formaður Sjálfstæðisflokksins dregur fram það sem birtist í Mogganum þann dag og kemur með fyrirspurnir til mín um, og þar var einmitt verið að býsnast yfir þessum skilanefndum. Ég skil ekki af hverju menn þurfa að vera að býsnast yfir því. Hefur ekki fólk verið að kalla eftir gegnsæi í störfum skilanefndanna, það sé jafnræði á milli aðila þegar verið er að gera upp þessi fyrirtæki innan skilanefndanna? Það er það sem ég kalla eftir, eftir hvaða regluverki hefur verið farið og hvernig það gagnsæi er sem hefur verið unnið samkvæmt í skilanefndunum. Mér finnst eðlilegt að um það sé spurt.

Varðandi það sem gera þarf fór ég bæði yfir það í ræðu minni í gær og í dag. Það er mjög margt sem þarf að gera að því er varðar fjármálakerfið og þarf að byggja á því og fara yfir reynsluna af því sem aflaga fór í hruninu. Við erum t.d. að skoða hvernig hægt er að taka á krosseignatengslum sem ég nefndi áðan, hvernig er hægt að gera fjármálakerfið þannig úr garði að slíkt hrun endurtaki sig ekki. Boðaðar hafa verið í þeirri þingmálaskrá sem lögð hefur verið fram margvíslegar breytingar af hálfu efnahags- og viðskiptaráðuneytisins til að styrkja allan fjármálamarkaðinn og gera hann gegnsærri. Þessar tillögur munu koma fram á næstu vikum og mánuðum.

Varðandi norræna velferðarkerfið þá veit hv þingmaður og ég hef sagt það áður að það drabbaðist hér niður á þeim velsældarárum sem við áttum þegar mikill tekjuafgangur var á ríkissjóði. Jafnframt var ekki farið rétt í skattbreytingar. Í þeirri skýrslu sem birt var í dag og unnin var af Hagfræðistofnun og Félagsvísindastofnun (Forseti hringir.) kemur fram að það varð mikil misskipting á þessum árum og varð það einnig varðandi skattabreytingar, þær hafa fyrst og fremst komið til góða þeim betur settu en ekki öðrum.