138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju með að fá þetta tækifæri til að ræða um efnahagshrunið og endurreisnina en verð samt á sama tíma að segja að auðvitað litast þessi umræða öll í dag dálítið af því að við bíðum niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar sem von er á innan nokkurra vikna. Það er skoðun mín að hæstv. forsætisráðherra hafi notað stóran hluta ræðu sinnar til að fara í einhvers konar pólitískt uppgjör við hluti eins og einkavæðingarferlið og stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins í samstarfi með öðrum flokkum á fyrri tímum í stað þess að tala um það sem brennur á flestum sem er aðdragandi og orsakir falls bankanna og svörin við því hvernig við ætlum að hefja og tryggja örugga endurreisn.

Varðandi þá stöðu sem hér var uppi fyrir um það bil ári síðan er það rétt sem fram kom í máli hæstv. forsætisráðherra, þá stóðum við frammi fyrir gríðarlega miklum ógnum. Þá hafði fjármálakerfið á Íslandi hrunið, þá höfðum við í marga mánuði leitað að lánsfé til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann víða um heim án árangurs. Þá stóð krónan veik fyrir og féll eða skuldir heimila og fyrirtækja voru að vaxa. Það stefndi í að ríkissjóður mundi missa stóran hluta tekjustofna sinna og efla þurfti traust á efnahagsstjórn Íslands. Við þessar aðstæður tel ég að hafi verið rétt í upphafi að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég tel að við höfum á þeim tíma ekki haft marga aðra valkosti.

Það er eitt sem skiptir máli í því samhengi, það er að þegar horft er til baka höfðu við svo sem ekki neina glæsilega sögu að segja þegar litið var til viðskiptajöfnuðar við önnur lönd. Þá höfðum við verið með halla á viðskiptajöfnuði ár eftir ár aftur í tímann og þeir sem komu hingað til að taka út stöðuna höfðu svo sem enga sérstaka ástæðu til að ætla að það væri bjart fram undan í íslensku efnahagslífi. Þess vegna tel ég að það hafi verið skynsamlegt og nauðsynlegt að ákveða að ganga til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það skynjuðum við líka hjá þeim löndum sem höfðu gefið því undir fótinn með að veita einhverjar lánveitingar vildu tryggja að til staðar væri traust og ákveðið efnahagsplan sem lánin mundu nýtast til að styðja. Það var af þessari ástæðu og við þessar kringumstæður sem ákveðið var að ganga til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir um það bil ári síðan.

Síðan hefur ýmislegt breyst. Frá þeim tíma höfum við t.d. verið með jákvæðan afgang af vöruviðskiptum við útlönd í 11 mánuði. Það skiptir verulega miklu máli. Það hefur líka breyst að í upphafi var gert ráð fyrir því að við mundum með reglubundnum hætti draga á lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og að áætlunin með honum yrði endurskoðuð. Og eins og menn vita átti það að gerast síðast í febrúar á þessu ári. Ekkert hefur af því orðið þannig að lánin sem við töldum okkur hafa til ráðstöfunar á þessu ári til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann og koma okkur aftur á lappirnar hafa ekki verið til ráðstöfunar, ekki heldur lánin sem áttu að koma þeim til viðbótar frá Norðurlöndunum. Það hefur breyst. Þess vegna er ég er þeirrar skoðunar að við eigum að taka til endurskoðunar áætlunina um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við eigum að velta því fyrir okkur hvort staðan sem þá var uppi sé svo gerbreytt að það kunni annað að eiga við núna og önnur úrræði geti verið skynsamleg.

Í þessu samhengi held ég að við verðum líka að horfa til þess hver skilyrðin eru fyrir lántökunum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hjá þeim sem ætla að styðja það prógramm, hversu ströng skilyrði eru fyrir því ef við drögum á lánin og hvernig við nýtum það fé sem þar er fjallað um. Skilyrðin eru býsna ströng og við höfum ekki algerlega frjálst val um það með hvaða hætti við nýtum þá fjármuni. Þessi umræða snýst öll um að efla traust á landinu þannig að fólk hafi þá sýn og þá trú á íslensku efnahagskerfi að við getum staðið á eigin fótum og eigum fyrir eigin reikningum. Þegar öllu er á botninn hvolft er ég þeirrar skoðunar að það sé miklu líklegra til að efla þetta traust að snúa viðskiptajöfnuðinum við eins og við höfum nú þegar gert, koma með raunhæfa áætlun um endurbyggingu efnahagslífsins og þar með talið í ríkisfjármálum sem sýnir fram á það að innan tiltölulega skamms tíma munum við Íslendingar hætta að eyða meiru en við öflum. Til þess þurfa menn að vera tilbúnir til að virkja og nýta þær auðlindir sem eru í landinu en menn verða líka að vera tilbúnir til að draga saman. Raunhæf áætlun í ríkisfjármálum, jákvæður vöruskiptajöfnuður og ekki óhófleg heldur skynsamleg og bara nauðsynleg skuldsetning, þetta eru þættirnir sem munu tryggja það að traust vex að nýju á íslensku efnahagslífi og hingað leitar fjármagn að nýju til atvinnustarfseminnar vegna þess sem við þurfum af öðrum ástæðum að tryggja. Það gerist ekki með því að hlaupa til út um allar jarðir og taka lán. Það eitt og sér mun ekki afla okkur trausts. Að við höfum til ráðstöfunar risastóra sjóði ef allt fer á versta veg, er ekki það sem við Íslendingar þurfum á að halda til að öðlast traust að nýju og koma okkur á fætur.

Það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði að prógrammið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum snerist annars vegar um að fá lán sem við ekki höfðum og hins vegar um það að afla trausts á íslensku hagkerfi. Hvort tveggja hefur mistekist en ég tel að við getum fengið hið síðarnefnda af eigin rammleik með því að standa saman um öflugt traust plan um það hvernig við vinnum okkur út úr þessum erfiðleikum. Ég held að það sé enginn þingmaður hér inni sem lætur sér detta það í hug að við þurfum ekki að skera mikið niður. Ég er viss um að allir í þessu landi átta sig á því að lífskjör munu versna. En við erum greinilega dálítið ósammála um hvernig fara á að þessu en það er vel hægt að greiða úr þeim ágreiningi. Svo er auðvitað ólík sýn á hvernig við getum að nýju aukið tekjurnar. En festumst ekki í þeirri hugsanavillu að við eigum allt undir því að taka risastór lán og látum ekki setja okkur þá afarkosti að ef við göngumst ekki við pólitískum afarkostum í Icesave-málinu þá muni enginn treysta okkur til frambúðar. Það er bull. Það stenst enga skoðun að vera með þann málflutning í þessum sal. Það er algert rugl. Við höfum nú þegar gert miklu meira en hægt er að ætlast til af einni þjóð, að hún taki á sig nýjar skuldbindingar vegna falls bankanna, vegna skulda einkafyrirtækja — að slík þjóð taki á sig í ríkisskuldir, í skuldir almennings í landinu. Við erum nú þegar búin að rétta út sáttarhönd í Icesave-málinu og höfum gert miklu meira en hægt er að ætlast til. Menn hafa áhyggjur af því að síðar í þessum mánuði kunni að falla á innstæðutryggingarsjóðinn allar hans skuldbindingar. En ég segi bara: Er það ekki kærkomið tækifæri til að láta reyna á réttarstöðuna? Er þá ekki komin upp sú staða að Bretar og Hollendingar þurfi að fara í mál við innstæðutryggingarsjóðinn? Er þá ekki kominn traustur farvegur og er hann ekki bara handan við hornið síðar í þessum mánuði, tækifærið sem við höfum kannski tapað sjónum af? (Gripið fram í: Þú taldir það ekki í vetur.) Hér er gripið fram í að ég hafi ekki talið það í vetur. Það er allt rétt sem sagt hefur verið um að ég studdi það að við reyndum að leita lausna á Icesave-deilunni. En eins og ég ítrekaði höfum við nú þegar gert allt sem hægt er að ætlast til af okkur til að leysa þá deilu og þær viðræður mega ekki ganga út á það að ef Bretar og Hollendingar fá ekki allt sitt höfum við ekki gert nóg. Það er alger fásinna að fallast á allar þeirra kröfur, að gera alla heildarskuldina að skuld íslensks almennings langt inn í framtíðina þannig að meira að segja þegar litla dóttir mín sem núna er fimm ára verður á mínum aldri verður ekki enn þá búið að borga skuldina. Það er alger fásinna að taka að sér slíkar skuldbindingar að fullu án þess að reynt hafi verið að láta reyna á slíkt fyrir dómstólum. Það er allt annað að gera sátt í málinu þar sem báðir aðilar leggja eitthvað af mörkum. En hér er krafan sú að Íslendingar taki allt á sig.

Varðandi það sem komið var inn á í skýrslu forsætisráðherra um það sem brást — það var margt sem brást. Ég get tekið undir það að flestir af þeim liðum sem hún taldi upp í ræðu sinni brugðust. Varðandi regluverkið hef ég margoft tekið fram að ég tel að það hefði mátt vera traustara, en það eru ýmsir sem vilja eigna sér allar hugmyndirnar sem eftir atvikum hefðu komið til góðs ef eftir þeim hefði verið farið. Á sínum tíma viðraði formaður Sjálfstæðisflokksins hugmyndir sínar um takmörkun á eignarhaldi bankanna. Hverju var þá haldið fram í umræðunni? Þá var því haldið fram að þessar hugmyndir væru einungis til komnar til að viðhalda einhverri helmingaskiptareglu, til að tryggja það að einhverjir tilteknir aðilar mundu fara með hámarkseignarhlutinn og aðrir kæmust ekki að. Nú er öllu snúið á hvolf. Nú eru þeir sem þessu héldu fram mennirnir sem vildu ekki dreifða eignaraðild. Það er allt rétt sem fram kom hjá hv. formanni Framsóknarflokksins áðan að það fór eins fyrir bönkunum sem áður höfðu verið í einkaeigu og voru ríkisvæddir og hinum sem aldrei voru í ríkiseigu og voru komnir í tiltölulega þröngt eignarhald.

Menn skulu líka hafa það í huga að það fór eins fyrir bönkunum í Frakklandi og það fór eins fyrir bönkunum í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Þó að menn hafi eignað Sjálfstæðisflokknum ýmislegt geta menn ekki kennt honum um það sem þar gerðist. Og þegar maður hittir þingmenn í störfum sínum fyrir þingið eða eftir atvikum ráðherra annarra landa eins og t.d. þegar Evrópumálaráðherra Frakklands var hér um daginn þá gaus upp í honum reiðin, það sauð á honum vegna þess að hann var svo reiður út í bankamenn síns heimalands. Hann talaði um hvernig regluverkið hefði brugðist. Það reyndar gerði líka hæstv. forsætisráðherra í gær þegar hún fór yfir regluverkið sem brást í Icesave-málinu. Þá var þingheimi kynnt að við hefðum orðið fórnarlömb þess, eins og sagði í ræðu hennar í gær, með leyfi forseta:

„… að allar þjóðir sem við eigum helst samskipti við, bæði austan hafs og vestan, töldu nauðsynlegt að verja gallaðar fjármálareglur til þess að forða áhlaupi á banka víða um heim. Við stóðum ein og gerum það enn í Icesave-málinu.“

Þetta var sannleikurinn í gær. Núna er þetta allt Sjálfstæðisflokknum að kenna og glæframönnum í bönkum. Vissulega fóru menn glannalega í bönkunum og greinilegt er að eftirlit brást á Íslandi. Það er greinilegt. Og reglurnar sem þarf að taka til endurskoðunar varða þau atriði sem komið var inn á, eins og krosseignatengslin, það er augljóst. Lánveitingar til eigenda bankanna eru atriði sem greinilega fór úr böndunum á Íslandi, það er augljóst. Hámarkslán til einstakra aðila — þetta þarf að endurskoða. Sum lönd fara þá leið að þeir sem vilja fara með stóran eignarhlut í banka hafi því sem næst engar heimildir til lántöku hjá sama banka. Betur hefði farið á því í aðdraganda hrunsins. En þessi atriði verða auðvitað öll á dagskrá þegar við komum saman til að ræða rannsóknarnefndarskýrsluna þegar hún birtist.

Ég tel að þegar við horfum fram á veginn eigum við og höfum fullt tilefni til að líta til þeirra styrkleika sem við höfum. Við höfum enn hvað mesta landsframleiðslu á mann hér á Íslandi. Við höfum sterka innviði og mjög öfluga atvinnuvegi. Ef við horfum á klassísku grunnatvinnuvegina á Íslandi eru þeir vel tæknivæddir og hafa nýtt undanfarin ár til að endurnýja til að mynda skipaflotann og þær verksmiðjur og fyrirtæki sem byggð hafa verið upp og eru t.d. í orkufrekum iðnaði, þau eru af nýjustu tækni og bestu gerð með frábæra framlegð og góða og trausta framleiðslu. Við getum haldið áfram á þessari braut. Góðærið var nýtt til að fjárfesta í menntuninni, sem stundum gleymist og við vitum öll hvað er mikilvæg. Þess vegna er til staðar í landinu í dag ung kynslóð, betur menntuð en nokkur önnur kynslóð sem vaxið hefur úr grasi í þessu landi. Við eigum allt undir því að hún leggi ekki upp laupana og fari af landi brott heldur taki þátt í verkefninu sem er fram undan. Það getum við vel fengið hana til að gera ef við bara drögum aðeins svartsýnina frá augunum og veitum krafti, þori, áræði og bjartsýni til þjóðarinnar. Því miður mun það ekki gerast ef menn halda áfram þessu karpi sem oft vill verða á þinginu. Við í stjórnarandstöðunni viljum vera með uppbyggilega stjórnarandstöðu en við þurfum auðvitað trausta ríkisstjórn (Forseti hringir.) til að leiða málin áfram.