138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:19]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Ræðumönnum í dag og reyndar þjóðinni allri hefur orðið tíðrætt um þann mikla efnahagsvanda sem við stöndum óneitanlega frammi fyrir og engin er ástæða til að gera lítið úr honum, hann er verulegur. Við höfum aldrei staðið í svipuðum sporum áður og reyndar er leit að öðrum löndum sem hafa gert það. En þó er rétt að hafa í huga, og kannski anda aðeins í gegnum nefið, að þetta er í grundvallaratriðum vandi ríkrar þjóðar. Við horfum núna upp á að stærðir eins og verg landsframleiðsla eða kaupmáttur launa lækka um allmörg prósent og það er vissulega afar óþægilegt en við verðum að hafa í huga að það sem er að lækka var mjög hátt áður, bæði í sögulegu samhengi og alþjóðlegum samanburði. Auðvitað breytir það stöðunni talsvert. Ef við berum vanda okkar núna saman við hversdagslegan efnahagsvanda fyrr á öldum þá held ég að forverum okkar hefði þótt okkar vandi, þegar á heildina er litið, frekar léttvægur af því að fyrri kynslóðir Íslendinga áttu í erfiðleikum með að lifa af. Ekkert mátti út af bregða, þá dóu menn úr hungri eða vosbúð.

Ég er ekki að draga þetta fram til að gera lítið úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að setja hann í samhengi. Við sjáum bakslag, það er verulegt og djúpt en það færir okkur ekki aftur á fyrri aldir í lífsgæðum eða lífskjörum. Það færir okkur aftur um nokkur ár, til tíma þegar lífskjör voru allgóð og höfðu reyndar aldrei verið betri. Þegar verg landsframleiðsla nær lágmarki, líklega á næsta ári, verður hún kannski svipuð á mann og hún var 2003, 2004 eða 2002, við vitum það ekki alveg. 2002 var ekkert sérstakt hallæri. Það var reyndar alveg ágætt ár. Svipað má segja um kaupmátt launa. Hann skerðist, það veldur vissulega miklum vandræðum hjá mörgum, nánast öllum Íslendingum, en hann er samt miklu meiri en hann hefur nokkurn tíma áður verið í Íslandssögunni að undanskildum kannski síðustu fjórum, fimm eða sex árum. En þetta er samhengið og er dregið fram til að við týnum okkur ekki alveg í sjálfsvorkunn og depurð. Þrátt fyrir allt höfum við það í heildina mjög gott en ekki alveg jafngott og í fyrra og hittifyrra.

Tjónið sem hefur orðið vegna hruns íslenska fjármálakerfisins er gríðarlegt á alla mælikvarða. Líklega hafa fjármagnseigendur tapað á að giska sjöfaldri landsframleiðslu Íslands. Ég þekki engin fordæmi úr veraldarsögunni þar sem eitt land hefur valdið slíku tjóni hjá fjármagnseigendum. Vissulega eru flestir þessir fjármagnseigendur útlendingar en tjónið er þarna engu að síður. Af þessum sjö landsframleiðslum eru kannski tæpar fimm, eða milli fjórar og fimm, kröfur á föllnu bankana sem verða ekki greiddar nema að litlum hluta og afgangurinn er hrun á verðmæti hlutabréfa í Kauphöllinni. Verðmæti hlutabréfa þar var orðið vel ríflega tvöföld landsframleiðsla en hún minnkaði um nánast 100%, líklega svona um það bil 95%. Þar hurfu tvær landsframleiðslur og líklega ríflega það. Allt er þetta raunverulegt tjón frá sjónarhóli þeirra sem áttu þessi verðbréf, hvort sem það voru skuldabréf eða hlutabréf, en við verðum samt að hafa í huga að þetta er í eðli sínu tjón á pappír. Hlutabréf og skuldabréf eru ávísanir á verðmæti, ekki raunveruleg verðmæti í reynd. Þessar ávísanir eru núna innstæðulitlar eða innstæðulausar en lítið hefur breyst hversu mikil raunveruleg verðmæti landið á. Hver eru raunverulegu verðmætin? Við getum annaðhvort mælt það með því að skoða framleiðslugetu landsins — hún er nánast óhögguð, hefur kannski aðeins minnkað en ekkert í líkingu við þetta — eða við getum skoðað framleiðsluþættina, sem fara til að búa til vörur og þjónustu. Þar er auðvitað fyrstur og fremstur mannauðurinn, hann er nánast allur hér, hefur reyndar aldrei verið meiri í Íslandssögunni. Síðan eru innviðirnir og náttúruauðlindirnar og reyndar líka sagan, menningin og viðskiptavenjurnar. Allt er þetta enn hér. Á þessu getum við byggt og munum byggja.

Vestan hafs, í Bandaríkjunum, tala menn stundum um annars vegar Wall Street, sem er fjármálageirinn, og hins vegar Main Street sem er þá allt annað, raunhagkerfið. Á Íslandi hefðum við einhvern tíma getað kallað þetta Bankastræti og Laugaveg en það er víst enginn banki eftir í Bankastræti og Laugavegurinn er ekki sú efnahagsmiðstöð sem hann var áður fyrr. En það breytir því ekki að við höfum þessa sömu tvískiptingu hér, eins og reyndar öll önnur vestræn hagkerfi. Það sem hefur gerst er að okkar bankastræti hrundi, fjármálakerfið hrundi, allar þessar peningalegu eignir, eða nær allar, urðu einskis eða lítils virði en eftir stendur allur raunauðurinn. Leiðin út úr vandanum er auðvitað fólgin í þessu.

Lykillinn að því að við komumst út úr þessu er að við áttum okkur á því að við þurfum að laga fjármálakerfið. Við þurfum að laga alla þessa efnahagsreikninga sem sködduðust, m.a. vegna þess að af einhverjum ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér veðjuðu mjög margir, líklega umtalsverður meiri hluti fyrirtækjaeigenda á Íslandi, á að japanska jenið og svissneski frankinn yrðu veikar myntir en íslenska krónan sterk. Svo gerðist hið þveröfuga og fyrir vikið er engin von til að þessi fyrirtæki geti nokkurn tíma greitt skuldir sínar að fullu. Þá þurfum við bara að taka á því. Hvernig tökum við á því? Jú, við tökum á því eins og við höfum þegar gert. Við endurreisum fjármálakerfið og felum því svo að fara með viðskiptavinum sínum, — hér er ég fyrst og fremst að tala um fyrirtækin en í grundvallaratriðum eiga svipuð sjónarmið við um heimili sem eiga í vandræðum vegna skulda — fara með þeim yfir vanda þeirra og leysa hann.

Upp úr því þurfa að spretta fyrirtæki sem geta nýtt hinar raunverulegu eignir þjóðarinnar til að búa til vörur og þjónustu, til að veita atvinnu, greiða laun, greiða skatta og í raun og veru halda uppi þeim lífskjörum sem við höfum vanist og eigum að geta fengið aftur í framtíðinni. Við getum hins vegar ekki ætlast til þess að ríkisvaldið fyrir hönd skattgreiðenda leysi vanda allra þessara fyrirtækja sem eru afar illa stödd. Það er einfaldlega ekki hægt fyrir íslenska ríkið að leysa vanda af þessari stærðargráðu með því að velta honum yfir á herðar skattgreiðenda, jafnvel þó að vilji einhverra stæði til þess. En auðvitað er það ekki þannig. Það stendur ekki vilji neinna til að láta íslenska skattgreiðendur borga reikninginn. Reyndar er grundvallarmunur á því sem hefur verið gert á Íslandi og þess sem hefur verið gert í nágrannalöndum okkar sem viðbrögð við svipuðum vanda, að vísu ekki jafndjúpstæðum þar en miklum líka. Þar hefur ríkisvaldið tekið til sín vandræðaeignir úr fjármálakerfinu, keypt þær í raun og veru á yfirverði, með það beinlínis að leiðarljósi að láta síðan skattgreiðendur borga það sem upp á vantar, yfirverðið sem greitt var fyrir eignina. Þannig hafa menn leyst vandann með því að velta honum yfir á skattgreiðendur. Hjá okkur var það aldrei kostur í stöðunni af þeirri einföldu ástæðu að vandinn var margfalt stærri heldur en íslenskir skattgreiðendur hefðu nokkurn tíma getað ráðið við, fyrir utan að það stóð aldrei neinn vilji til að gera þetta.

Hvert er þá hlutverk ríkisins? Jú, ríkið á að tryggja umgjörð um endurreisnina, þar á meðal þarf að tryggja traust peningakerfi, auðvitað vantar talsvert upp á að við höfum það nú, en að því hljótum við að starfa þannig að við getum verið með vexti sem eru ekki mikið hærri en í nágrannalöndunum og stöðugt gengi. Þá þarf ríkið að tryggja sanngjarnar og gagnsæjar leikreglur fyrir alla, þar er einnig víða pottur brotinn en þar munum við einnig bæta úr mörgu sem aflaga hefur farið á undanförnum árum.