138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:09]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að það væri nú viðeigandi ef hæstv. fjármálaráðherra væri viðstaddur þessa umræðu því að ég ætlaði að beina til hans nokkrum spurningum. Þar sem hann hefur lagt fram fjárlagafrumvarp sitt vil ég — já, ég sé að hæstv. ráðherra er mættur í salinn. (Gripið fram í.)

Ég ætla að byrja ræðuna á því að spyrja ráðherrann að því hvað hafi breyst frá síðustu alþingiskosningum fyrir rúmum fimm mánuðum þegar hæstv. ráðherra kom fram opinberlega og lofaði því að ef fólk mundi í fyrsta sinn í lýðveldissögunni kjósa vinstri stjórn, hreina vinstri stjórn, yrði reist skjaldborg um heimilin í landinu og þeim sem hvað verst stæðu í samfélaginu yrði hlíft. Það var ekki sagt einu sinni, það sögðu samfylkingarmenn og vinstri grænir í hverri einustu ræðu sem þeir héldu í aðdraganda þeirra kosninga og þjóðin kaus. (Gripið fram í: Velferðarstjórnina.) Hún kaus velferðarbrúna, hún kaus fyrstu hreinu vinstri stjórnina. (GÞÞ: Tæra.) Ég veit ekki hvort vinstri stjórn getur verið svo tær, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson.

Fyrsta verk þeirrar stjórnar var að skerða kjör aldraðra og öryrkja um 3,6 milljarða kr. Hvað breyttist frá kosningabaráttunni fram að þeirri ákvörðun, hæstv. fjármálaráðherra? Það er eðlilegt að spurt sé.

Núna þegar við lítum á þetta fjárlagafrumvarp sem við ræðum hér er gert ráð fyrir því að kjör aldraðra og öryrkja haldi áfram að skerðast á næsta ári, þ.e. kjör þeirra eigi ekki að fylgja vísitölu verðlags þannig að samkvæmt þeim forsendum sem fjármálaráðuneytið gefur sér munu kjör aldraðra og öryrkja skerðast um 5% á næsta ári. Ég spyr, frú forseti: Er þetta skjaldborgin og vörn fyrir þá sem hvað verst standa í íslensku samfélagi? Rætist það loforð hér með þessu frumvarpi? Nei. Hér er um alger svik að ræða af hálfu hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum þjóðfélagshópum og ég tel rétt að hæstv. ráðherra komi hér upp og útskýri af hverju forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er með þessum hætti þvert á loforð sem gefin voru einungis fyrir örfáum mánuðum síðan.

Hæstv. ráðherra spurði: Hvað skal gera? Hann vantar greinilega heilmikið af ráðleggingum, m.a. frá stjórnarandstöðunni, því að ef við lesum þetta fjárlagafrumvarp sjáum við að hér er um úrræðalausa ríkisstjórn að ræða. Hvað skal gera, hæstv. fjármálaráðherra? Við þurfum að örva erlenda fjárfestingu í landinu, við þurfum að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað, við þurfum að fjölga störfum. Á tyllidögum segir þessi ríkisstjórn að það sé hennar stefnumið en síðan gerir hún allt annað. Við getum séð til að mynda nýlegan úrskurð hæstv. umhverfisráðherra sem teflir í hættu mörg hundruð störfum á Suðurlandi og Suðurnesjum. Og við munum nýlega ákvörðun sem ríkisstjórnin tók um að framlengja ekki viljayfirlýsingu á milli Norðurþings, stjórnvalda og fyrirtækisins Alcoa. Þar er í raun og veru er verið að sólunda gríðarlega mikilli undirbúningsvinnu og miklum fjármunum sem heimamenn hafa lagt í varðandi uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík.

Nei, ríkisstjórnin ákveður að þvælast fyrir í þessum stóru atvinnuuppbyggingaráformum á þeim tímum þegar við horfum upp á eitt mesta atvinnuleysi í sögu lýðveldisins. Hvað skal gera, frú forseti? Það þarf að lækka stýrivexti. Þessi ríkisstjórn hefur ætlað að lækka stýrivexti alveg frá því að hún tók til starfa og hún lofaði því nú fyrr á árinu að stýrivextir undir árslok yrðu orðnir alveg svakalega lágir. Þeir eru 12% í dag, með því hæsta sem gerist á byggðu bóli. Á meðan horfum við upp á að íslenskt atvinnulíf er stórskuldugt og íslensk heimili líka. Hvað líður því að hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að stýrivextir verði lækkaðir hér á landi?

Við þurfum líka að stuðla að framkvæmdum innan lands. Hvað skal gera? spyr hæstv. fjármálaráðherra. Jú, ríkisstjórn hans ætlar að lækka framlög og fjárfestingu í vegamál á næsta ári um 8,8 milljarða kr. Á sama tíma heyrum við verktaka tala um að fram undan séu mjög takmörkuð verkefni á þeim sviðum. Ef hæstv. ráðherra telur að arðbær fjárfesting í vegaframkvæmdum sé í raun og veru einhver samdráttur hjá hinu opinbera eða einhver hagræðing í rekstri er það rangt vegna þess að hér er verið að skera niður mjög hagkvæma fjárfestingu sem mundi skapa hundruðum manna atvinnu og skjóta stoðum undir mörg verktakafyrirtæki í landinu.

Hvað gerist ef menn hætta að fjárfesta í arðbærum framkvæmdum hér innan lands? Hvar endar þetta? Sú forgangsröð ríkisstjórnarinnar að skrúfa hreinlega fyrir opinber framlög til innlendrar vegagerðar, er ekki góð.

Því þurfum við að breyta í meðförum Alþingis og þá er komið að þessu stórkostlega samráði sem hæstv. ráðherra sagðist hafa viðhaft í aðdraganda þess að þetta frumvarp lagt fram. Hann segir að engar forsendur hafi í raun og veru breyst frá því á vormánuðum. Það hefur margt breyst. Ríkisstjórnin hefur svikið þann stöðugleikasáttmála sem hún skrifaði undir með sveitarfélögum og aðilum vinnumarkaðarins. Og það er heldur betur breyting á forsendum sem við horfum upp á hér þegar ríkisstjórnin sem er með nauman meiri hluta á þingi, ef hún er þá með meiri hluta á þingi, hefur ekki einu sinni viðsemjendur sína á bak við sig. Hún skrifaði undir samning gagnvart aðilum vinnumarkaðarins og sveitarfélaganna fyrir um 100 dögum síðan en virðist lifa í algerri afneitun og ekki heyra þegar forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands eða Samtaka atvinnulífsins orga beinlínis á stjórnvöld og segja þeim að standa við gefin fyrirheit og loforð. Stöðugleikasáttmálinn er undirstaðan undir því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum hér og fjármálaráðherra hefur ekki áttað sig á því að sá sáttmáli er fyrir bí í ljósi þess að stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi stuðlað að því að ekkert varð úr þeim sáttmála um stöðugleika sem menn stefndu að á sumarmánuðum.

Frú forseti. Það er annað mikilvægt sem við þurfum að ræða í þessari umræðu og er ekki inni í frumvarpi fjárlaga ársins 2010. Þar er ekkert minnst á hið svokallaða Icesave-mál. Ef við gefum okkur að við mundum ganga frá því máli, og reyndar hefur Alþingi gengið frá því máli fyrir sinn hlut, þyrftum við að gera ráð fyrir einhverju framlagi vegna vaxtanna sem koma á þær skuldir upp á rúmlega 40 milljarða kr. í þessu fjárlagafrumvarpi. Heldur hæstv. fjármálaráðherra að vextirnir byrji ekki að „tikka“ strax gagnvart Icesave-samningunum? Og hvað er þá verið að falsa þegar menn leggja fram að vaxtagjöld ríkissjóðs séu 100 milljarðar kr.? Þeir eru meiri. Þeir eru yfir 140 millj. kr. Við skulum bara segja hlutina eins og þeir eru, ólíkt því sem hæstv. fjármálaráðherra gerði í aðdraganda síðustu kosninga þar sem hann talaði um skjaldborg um heimilin og hann mundi standa vörð um kjör þeirra sem verst stæðu. Kosningarnar eru búnar, hæstv. fjármálaráðherra. Við skulum fara að tala um hlutina eins og þeir eru. En þessi ríkisstjórn virðist gersamlega vera svo fráhverf raunveruleikanum að það er hálfóhugnanlegt á þessu hausti þegar við blasa margar erfiðar ákvarðanir sem við þurfum að taka og varða rekstur ríkisins.

Það kom fram hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni áðan, sem er þá enn eitt brot á þeim stöðugleikasáttmála sem ríkisstjórnin skrifaði undir, að ríkisstjórnin ætlar að seilast í meira mæli í vasa almennings með hækkuðum álögum á heimilin í landinu umfram það sem gert var ráð fyrir þegar menn skrifuðu undir stöðugleikasáttmálann. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra að því hvort honum finnist það í lagi að þau fjárlög sem hann hefur lagt fram skuli ekki hljóma í samræmi við það sem hann skrifaði undir í tengslum við stöðugleikasáttmálann. Er í lagi að ganga á bak orða sinna í þessum efnum, ekki bara hvað þetta varðar heldur hvað almenna atvinnuuppbyggingu í landinu varðar? Þær eru margar spurningarnar, frú forseti, sem hæstv. ráðherra þarf að svara okkur í þessari umræðu. Hann getur ekki sagt það hér að stjórnarandstaðan hafi ekki haft neitt fram að færa, engar lausnir varðandi auknar tekjur ríkissjóðs. Við höfum talað fyrir atvinnuuppbyggingu sem ríkisstjórnin þverskallast við að veita brautargengi. Við viljum frekar fara í slíka atvinnuuppbyggingu en skattleggja heimilin í landinu. Við þurfum að slá raunverulega skjaldborg um skuldug heimili, tugþúsund talsins, og mér er til efs að þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um stórhækkaðar álögur á heimilin í landinu séu raunhæfar, þ.e. fyrir heimilin. Þetta er eitthvað sem við þurfum að endurskoða á þessu haustþingi og ég sakna þess að ekki skuli staðið við það sem sagt var þegar hæstv. ráðherra og núverandi ríkisstjórn tók við í febrúarmánuði. Þá var talað um að nýir tímar væru runnir upp, að hafa ætti mjög víðtækt samráð líka við stjórnarandstöðuna þegar kæmi að mikilvægum málum. Við komum að fjárlögunum hér og nú. Við höfum ekki fengið að koma neitt að undirbúningi fjárlagagerðarinnar fyrr en núna. Þá kemur hæstv. ráðherra upp og segir: Hvernig var þetta fyrir fimm árum? Eða hvernig var þetta fyrir tíu árum? Hann hefur sjálfur sagt að nú væru runnir upp nýir tímar í íslenskri pólitík. En samráð við stjórnarandstöðuna í aðdraganda þessa máls hefur ekki verið neitt.

Við framsóknarmenn lögðum fram mjög viðamiklar og metnaðarfullar efnahagstillögur á Alþingi þegar við studdum minnihlutastjórn vinstri flokkanna. Þær kváðu m.a. á um leiðréttingu skulda heimilanna. Hæstv. fjármálaráðherra kom ófáar ferðir upp í ræðustól þingsins og reyndar hæstv. forsætisráðherra líka, sem er ekki viðstödd þessa umræðu. Þau kváðu þessar hugmyndir okkar í kútinn, sögðu þær óraunhæfar og í raun og veru „popúlisma“. Hver er staðreyndin núna, átta eða níu mánuðum síðar? Hver er staðreynd mála í dag? Nú tala stjórnmálamenn í öllum flokkum um að það sé óhjákvæmilegt að leiðrétta skuldir heimilanna í landinu með almennum hætti. Það segja stjórnmálamenn úr öllum flokkum, meira að segja er hæstv. ráðherra Árni Páll Árnason, sem kom hvað oftast manna hér upp til að lýsa frati á hugmyndir framsóknarmanna, farinn að tala fyrir leiðréttingum á skuldum heimilanna. En setjum okkur í þau spor að menn hefðu hlustað og ráðist hefði verið í einhverjar raunverulegar aðgerðir á þeim tíma, væri staðan jafnvel ekki allt önnur í dag en hún er? Við vitum að staða heimilanna hefur versnað gríðarlega með því aðgerðaleysi sem einkennt hefur ríkisstjórnina á undangengnum mánuðum. En að sjálfsögðu fögnum við framsóknarmenn því ef stjórnvöld ætla nú loksins að taka sér tak og ráðast í einhverjar raunverulegar aðgerðir fyrir heimilin og fyrirtækin. Hvað hafa forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar komið oft hér upp og talað um nauðsyn þess að endurreisa bankakerfið? Nú er liðið rúmlega ár frá hruni bankanna. Það er ekki búið að endurreisa íslenskt bankakerfi. Ef við göngum ekki þannig frá rekstrarumhverfi bankanna mun atvinnulífið í landinu að sjálfsögðu ekki þrífast og við köllum því enn og aftur eftir því að menn klári það verk sem því miður hefur verið rætt um margra mánaða skeið á þinginu.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra, þar sem hann talaði mikið um byggðamál í aðdraganda síðustu kosninga og um opinber störf, ekki hvað síst á landsbyggðinni, hvort hann sé fylgjandi því í hjarta sínu að snarfækka sýslumannsembættum vítt og breitt um landið og sameina öll skattumdæmin í eitt. Þessi mikilvægu störf í mörgum byggðarlögum vítt og breitt um landið hafa verið þessum byggðum mjög mikilvæg og ég hélt í aðdraganda síðustu kosninga að menn hefðu frekar ætlað að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni en fækka þeim. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geri sér einhverja grein fyrir því hvaða afleiðingar þessi áform munu hafa á mörg samfélög úti á landi. Á að leggja niður skattstofur í heild sinni? Á að leggja niður skrifstofur sýslumannsembætta í heild sinni? Hvert er ráðherrann að fara í þessum efnum? Og ég ætla að minna hæstv. ráðherra á að það eru ekki nema rúmir fimm mánuðir síðan kosið var, fimm og hálfur, og það hefur ótrúlega margt breyst hjá hæstv. fjármálaráðherra á ekki lengri tíma.

Þessi áform ríkisstjórnarinnar eru óljós fyrir fólkið sem starfar á þessum skrifstofum, hvort það haldi störfum sínum, eða á að leggja eitthvað af þessum skrifstofum niður? Það er nauðsynlegt í þessari umræðu að fá hugmyndir ráðherra á hreint, út frá hverju á að ganga áður en Alþingi ræðir þetta í fjárlaganefnd.

Hæstv. ráðherra ætlar að búa sér til 5 millj. kr. neyðarsjóð sem Alþingi á að samþykkja. Hæstv. ráðherra á að geta sótt í sjóðinn að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem hann setur sér væntanlega sjálfur. Nú veit ráðherrann náttúrlega að löggjafarvaldið fer með fjárheimildir til framkvæmdarvaldsins. Er það svo flókið fyrir hæstv. ráðherra eða hvern þann ráðherra sem lendir í því að þurfa að auka óvænt útgjöld, að leita til þingsins varðandi slíkt, að fara á fund fjárlaganefndar, fara yfir málin og leita eftir þverpólitískum stuðningi frekar en mynda einhvern 5 milljarða kr. sjóð sem ráðherrann getur tekið út samkvæmt eigin leikreglum? Ég held að við alþingismenn þurfum að vara okkur á hugmyndum sem þessum. Hvar endar þetta ef við hefjum þessa vegferð? Getur verið að það verði kominn almennur 100 milljarða kr. neyðarsjóður fyrir ríkisstjórnina eða 200, eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson nefnir hér? (Fjmrh.: Viltu fá bara eina tölu?) Nei, við þurfum að standa vörð um sjálfstæði þingsins og þær valdheimildir sem þingið veitir framkvæmdarvaldinu og ég vorkenni hæstv. ráðherra ekki neitt að þurfa að rölta yfir Austurvöll og hitta fjárlaganefnd þingsins og fara yfir þau mál sem brenna á honum og hans ráðuneyti hverju sinni. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Þetta fjárlagafrumvarp einkennist af því að í raun og veru hefur hæstv. fjármálaráðherra gengið á bak margra stórra yfirlýsinga sem hann viðhafði í aðdraganda síðustu kosninga. Það eru ekki mörg ár síðan þær kosningar fóru fram. Það eru einungis nokkrir mánuðir. Og látum nú vera ef hæstv. ráðherra hefði verið í stjórnarandstöðunni þá. En hæstv. ráðherra var innsti koppur í búri í fjármálaráðuneytinu. Hann vissi nákvæmlega hver staða ríkissjóðs var á þeim tíma þegar hann lofaði öldruðum og öryrkjum að kjör þeirra yrðu ekki skert, þeim yrði hlíft, og þegar hann talaði um að menn þyrftu að standa vörð um opinber störf á landsbyggðinni. Svo byrjar hann á því að loka eða leggja niður heilu skattstofurnar vítt og breitt um landið sem heyra undir hans eigið ráðuneyti. Að sjálfsögðu kemur ekki til greina af hálfu hæstv. ráðherra að staðsetja höfuðstöðvarnar úti á landsbyggðinni, er það? Stendur það til? Ekki ef marka má þær yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra hefur viðhaft. Mér sýnist að embættismannakerfið á suðvesturhorninu hafi náð yfirhöndinni yfir hæstv. ráðherra og að flytja eigi megnið af þessum störfum á þann stað og gera einhverjar skattstofur að litlum, sætum útistöðum. Það er miklu auðveldara að skera síðan niður þar en hjá manninum á skrifstofunni við hliðina. Það sannar sagan og það vitum við á þinginu.

Að lokum vil ég segja, frú forseti, að ég harma að hæstv. ráðherra, þótt hann hlæi hér, hafi ekki haft samráð við okkur í stjórnarandstöðunni um þessi mál. Við fengum enga aðkomu að þessu þrátt fyrir gefin fyrirheit á undangengnum mánuðum um að stjórnsýslan ætti að vera algerlega ný og breytt. Ég hef líka áhyggjur af því að það „prógramm“ sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sett upp í samráði við íslensk stjórnvöld sé of bratt, að of bratt sé farið í niðurskurð, og við sjáum margar sársaukafullar aðgerðir hér. Auðvitað vitum við að við verðum að fara í einhverjar slíkar aðgerðir en þegar ég sé þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin ætlar að setja á skuldug heimili þessa lands hef ég miklar efasemdir um að mörg þeirra standi undir þeim gríðarlegu skattahækkunum sem boðaðar hafa verið.

Ég vona að við á þinginu náum einhverjum tökum á þessu máli, rétt eins og í Icesave-málinu, komum viti fyrir þessa ríkisstjórn, komum á aukinni atvinnustarfsemi í landinu, látum hjól atvinnulífsins fara að snúast, fjölgum störfum, aukum þannig tekjurnar og lækkum þannig þær fyrirhuguðu skattálögur sem ríkisstjórnin ætlar að leggja á fjölskyldurnar í landinu. Við skulum taka höndum saman á þinginu vonandi þvert á stjórn og stjórnarandstöðu því að það frumvarp sem hæstv. ráðherra hefur lagt fram er því miður (Forseti hringir.) óraunhæft fyrir heimili og fyrirtæki og landið í heild sinni.