138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir alveg ágætis svör. Varðandi Matís er sá texti illskiljanlegur og full ástæða til að endurskoða hann. Það má lesa það út úr honum að 26 millj. kr. hækkun skapi 200 störf. Ég vil þó hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir þá galdra ef hægt er að búa til 200 störf með 26 millj. Það er alger snilld ef það er hægt og mætti læra af því. En líklega er þetta einhvers konar prentvilla og þarf þá að laga þennan texta. Ég ætla ekki að fara dýpra í það.

Varðandi gildandi samninga um ferjurekstur langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um hvort hann taki undir það með mér að í ljósi þeirra skelfilegu samgangna sem eru vestur á firði, á suðurfirðina, sé ástæða til að lengja og endurnýja þennan samning þannig að Baldur geti tryggt fólki mannsæmandi samgöngur sem ekki eru í dag.

Varðandi landsbyggðina er þetta náttúrlega kostulegt. Það er margt rétt sem fram kom í svari hæstv. ráðherra um að staðið er við hluta af því sem lofað var í öllum þessum norðvestur- og austurnefndum og hvað þetta heitir allt. En það eru samt skornir niður fjármunir á sumum stöðum. Hins vegar er út í hött að gefa starf með hægri hendinni og taka svo annað starf með vinstri, eins og boðað er í þessu frumvarpi. Það er búið að berjast í áratugi fyrir hverju einasta starfi úti á landi eins og ráðherrann veit og ég segi ekki að það sé gert af einhverri illkvittni. En það ber að skoða þetta frumvarp og þessar tillögur miklu nánar því að þetta er ekki sanngjarnt.