138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:51]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir greinargóð svör. Við höfum ákveðinn samhljóm, enda erum við bæði ný á þinginu. Í vor settust 27 nýir þingmenn á Alþingi og það var talað hátt um það af hálfu þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn að viðhöfð yrðu önnur vinnubrögð en áður. Ég heyri að hv. þingmaður talar um að hann telji mjög mikilvægt að við komum saman að þessu verkefni hér og séum samstiga. Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvernig honum birtast þessi nýju vinnubrögð sem eiga að leiða til aukins lýðræðis og gagnsæis í vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Hvernig þykir honum það blasa við okkur sem sitjum á Alþingi og þá sérstaklega okkur sem hér sitjum ný?