138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:13]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vera svo óhrædd við að játa það að hún telji að þeir sem eiga stóreignir eigi ekki að greiða hlutfallslega meira til samfélagsins. Það er áhugavert og skýrir kannski línurnar og niðurstöðu kosninga. Við höfum margoft farið yfir það að hrun gjaldmiðilsins og bankanna þýddi eignatjón og lífskjaraskerðingu til ákveðins tíma hér á landi, m.a. vegna þeirrar stöðu sem uppi er í ríkisfjármálum. Hér hefur verið rætt um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði. Það er þá gott að ég bæti við spurningu til hv. þingmanns: Telur þú að eðlilegt sé að við ákveðum í dag, til að leysa þann vanda sem við höfum skapað og berum mismikla ábyrgð á, að við veltum þeirri byrði yfir á börnin okkar með því að taka að láni skattgreiðslur þeirra í framtíðinni þegar það verða færri á vinnumarkaði sem eiga að standa undir almannatryggingagreiðslum til fleiri ellilífeyrisþega? (Forseti hringir.) Er það eðlilegt að við í dag látum þau taka á sig slíkar byrðar til framtíðar?