138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ólöf Nordal gladdist yfir því að vera óvart kölluð ráðherra áðan. Það var svo strax leiðrétt og verður þetta þá sennilega einhver stysti ráðherradómur sögunnar ef svo fer. (Gripið fram í: … Framsóknarflokknum.) Já, styttri en formennska ónefnds manns í Framsóknarflokknum.

Hv. þingmaður talar mjög hart gegn öllum skattahækkunum á einstaklinga ef ég skildi mál hennar rétt. Fyrr í dag tóku sjálfstæðismenn mikla aríu gegn öllum áformum um orku-, auðlinda- og umhverfisgjöld.

Þriðji þingmaður Sjálfstæðisflokksins talaði gegn niðurskurði og taldi reyndar að hann bitnaði sérstaklega á landsbyggðinni. Hv. þm. Ólöf Nordal talaði gegn samdrætti í vegaframkvæmdum o.s.frv. Hvernig á þá að gera þetta ef má hvorki afla tekna né draga úr útgjöldum að neinu ráði? Auðvitað vildum við öll að skattstofnarnir skiluðu meiru. En af hverju gera þeir það ekki? Af hverju eru tekjurnar að hrynja og hverjir bera ábyrgð á því? Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki talað eins og hann viti einfaldlega ekki hvað hefur gerst á Íslandi og það sé honum óviðkomandi. Við horfumst í augu við afleiðingar hrunsins og verðum að takast á við það og það þýða engir draumórar um að hægt sé að gera þetta einhvern veginn allt öðruvísi.

Efnahags- og framfarastofnunin er með einföld ráð til Íslendinga í ársskýrslu sinni. Hver eru þau? Að draga til baka allar hinar mislukkuðu skattalækkanir á árunum 2003–2008. Þær voru efnahagslegt stórslys, hagstjórnarleg reginmistök, og það eru m.a. þær sem við erum núna að súpa seyðið af, að tekjugrunnur samneyslunnar í landinu er allt of veikur. Það er ekki verið að tala um annað en fara með hlutfall skatttekna upp í um það bil það sem það var lægst á árunum fyrir 2003. Sama hlutfall í ár af vergum þjóðartekjum og það var 2002 er það sem boðað er í fjárlagafrumvarpinu. Það er allt ofstækið í skattamálum sem veldur hv. þingmanni svona miklu hugarangri þó að greinilega komi eignarskattshugmyndin verst við hv. þingmann.