138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:47]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og fyrri fyrirspyrjandi, þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að taka til máls um þetta mál og gera nokkra grein fyrir stöðunni varðandi þær skipulagsbreytingar sem greinilega er fyrirhugað að ráðast í varðandi lögreglumál og skipulag sýslumannsembætta. Þessir hlutir eru mjög óljósir eins og birtist í fjárlagafrumvarpinu, sem er auðvitað galli, en við hljótum að fara í efnislega umræðu um þá þætti þegar frumvörp um slíkar breytingar koma fram. Ég tel að þar geti ákveðnar breytingar verið skynsamlegar og æskilegar, en hins vegar þurfum við að fara varlega í sambandi við þennan málaflokk, ekki síst að því er snýr að lögreglunni, vegna þess að, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir gat um, á tímum eins og við lifum er öryggi borgaranna, sem er meginhlutverk lögreglunnar, (Forseti hringir.) kannski mikilvægara verkefni en á venjulegum tímum.