138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns mótmæla þeim aðdróttunum sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafði hér í frammi varðandi fyrirrennara minn og fyrrverandi heilbrigðisráðherra, hv. þm. Ögmund Jónasson, sem er þekktur að miklum dugnaði og eljusemi en ekki fyrir að flýja af hólmi undan verkum eða áskorunum, þvert á móti. Þetta vil ég að komi fram.

Ég þakka fyrir spurninguna sem snýr að því hvort menn ætli að framkvæma fjárlagafrumvarpið eins og það nú liggur fyrir. Upplýst hefur verið að það sem hér er stefnt að er tiltekinn rammi. Það er alrangt að verið sé að krefjast flats niðurskurðar. Það er verið að leggja í hendur stjórnenda heilbrigðisstofnana og annarra stofnana ríkisins, sem og þeirra aðila sem eiga samninga við ríkið um þjónustu, að bregðast við aðlögunarkröfu sem er 5% á heilbrigðisþjónustu beint og 10% á stjórnsýslustofnanir og stjórnsýsluna. Það hefur verið reynt og mun verða reynt að hafa mjög gott samráð um hvernig þessu verður við komið. Mjög misjafnt er hvernig þetta kemur niður á einstökum stofnunum en einnig er misjafnt hvernig þetta kemur niður á rekstrarþáttum eða þjónustuliðum innan stofnananna.

Varðandi þann sparnað sem sagt er að geti komið af svokölluðu Kragaverkefni sem Hulda Gunnlaugsdóttir hefur gert tillögur um vil ég upplýsa að í ráðuneytinu, þessum stofnunum hér í Kraganum og á Landspítalanum er einmitt þessa dagana verið að fara nákvæmlega ofan í saumana á kostnaðarliðum sem fylgja þeirri skýrslu.