138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Búið sem ég eða aðrir ráðherrar í þessari ríkisstjórn tókum við, hvort heldur fyrir síðustu helgi eða í vor, er ekki bú sem Ögmundur Jónasson skildi eftir sig. Það er bú sem varð til vegna hrunsins. Við höfum rætt í allan dag þær afleiðingar sem það hefur á ríkisfjármálin, skuldastöðu ríkissjóðs og þá aðlögunarkröfu sem gera verður ef við ætlum að moka okkur út úr þessu. Þar hefur verið reynt að hlífa heilbrigðisþjónustunni, m.a. eins og ég sagði með því að gera almennt 5% aðlögunarkröfu á næsta ári til hennar.

Ég fullyrði að enginn vilji er til þess að grípa til flats niðurskurðar eins og hér hefur verið nefnt, með því að taka tölu eða aðra beint af hverjum einasta rekstrarlið. Það kemur ekki til álita. Þvert á móti er mjög mikilvægt að tekið sé tillit til þeirrar þjónustu sem veitt er (Forseti hringir.) hverju sinni þannig (Forseti hringir.) að grunnþjónustan sé varin annars vegar og störfin hins vegar. (Forseti hringir.) Ég er sannfærð um að það sé hægt og það mun ekki ríða öryggisneti okkar að fullu.