138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði nokkuð að umtalsefni þann fræga orkuskatt sem boðaður er í fjárlagafrumvarpinu. Ég verð að segja að eftir því sem þeirri umræðu hefur undið fram, þeim mun minna skil ég í henni. Upphaflega er þetta sem sagt lagt fram í fjárlagafrumvarpinu með tilteknum skýringum sem þar eru, fabúleringum um það hvernig þetta gæti nokkurn veginn litið út. Síðan hafa allir ráðherrar sem hafa verið spurðir um þessi mál verið á harðaflótta undan því að þetta sé nokkuð sem menn séu að hugsa um. Hæstv. iðnaðarráðherra gekk nú svo langt að kalla þetta einhvers konar hugaróra, fantasíu, ímyndun, sem þarna væri á ferðinni af hálfu þeirra sem bera ábyrgð á fjárlagafrumvarpinu, sem er auðvitað ríkisstjórnin.

Síðan hefur það gerst eftir því sem málið hefur verið rætt meira hafa fleiri ráðherrar komið fram og talið að það þyrfti að undanskilja þessari skattheimtu þær atvinnugreinar sem þeir bera fyrir brjósti, svo sem fiskeldi eða garðyrkju eða annað. Einstaka hæstv. ráðherrar hafa farið í einhvers konar uppboð og nefnt að það eigi nú ekki að skattleggja inn krónu á kílóvattsstund, heldur t.d. 10 aura eða 20 aura eða 30 aura, eftir því hvernig legið hefur á mönnum. Ég skal játa það, virðulegur forseti, að ég er satt að segja algjörlega hættur að skilja þetta. Sé það þannig að það eigi að vera 10 aurar, þá er það væntanlega tíundi hluti þeirra tekna sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir, nema þá auðvitað að það eigi að vera breiðari skattstofn.

Hæstv. iðnaðarráðherra hefur talað mjög skýrt og segir að ekki komi til greina að skattleggja sérstaklega eina atvinnugrein og vísar þá auðvitað til stóriðjunnar, sem gefur okkur það til kynna að þá sé verið að ræða um og hugsa um aðra skattstofna, aðra skattgreiðendur, sem eru einfaldlega aðrar atvinnugreinar. Sjávarútvegurinn er að ég hygg næststærsti notandi atvinnugreina að orku og síðan er það auðvitað almenningur, þeir sem kaupa orku til að hita húsnæði sitt eða lýsa upp heimili sín o.s.frv. (Forseti hringir.)

Þess vegna, án þess að ég vilji óska eftir því að hv. þingmaður fari nákvæmar í útlistun á þessu af því hann gerði þetta að umtalsefni, (Forseti hringir.) en það væri mjög fróðlegt að sjá fyrir sér í stuttu máli hvaða grunnhugmyndir eru þarna að baki, því ekki verður sagt að hæstv. (Forseti hringir.) ráðherrar hafi hjálpað til að skýra þær.