138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisverð umræða sem hæstv. félagsmálaráðherra veltir upp, þ.e. varðandi flutning fleiri verkefna til sveitarfélaganna, og minnist sérstaklega á málefni aldraðra og málefni fatlaðra. Þessi flutningur hefur verið í skoðun í nokkurn tíma en það sem að mínu viti er gallinn við þetta allt saman er sá og ég hef áhyggjur af, að sveitarfélögin séu farin að taka yfir málaflokka sem fylgir ekki nægilegt fé. Þá erum við sérstaklega að tala um málefni fatlaðra vegna þess að það hafa því miður ekki verið byggð upp nægilega öflug úrræði víðast hvar um land og í hinum dreifðu byggðum. Ef við skoðum Suðurland sérstaklega þarf að sækja nær alla þjónustu úr allri Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslu á Selfoss eða til Reykjavíkur. Ég veit að sveitarstjórnarmenn á þessum slóðum hafa miklar áhyggjur af því að eiga að taka við þessum málaflokki vegna þess að það sé svo gott að hafa þjónustuna nær en fjármunir til að sinna því muni ekki fylgja. Krafan verður þá sú að sveitarfélagið leggi í þær fjárfestingar sem þarf, krafan verður sú að þjónustustigið aukist en fjármagnið kemur ekki með. Hvar endum við þá? Hækkaðir skattar o.s.frv.

Ég hef gríðarlegar áhyggjur af þessu verkefni og ég tel einfaldlega að fara þurfi vel yfir það á þessu stigi hvort rétt sé að fara í þessar aðgerðir akkúrat núna. Ég heyri að hæstv. ráðherra vill nýta tækifærið og ekki láta góða kreppu fram hjá sér fara í þessu tilliti en ég hef miklar efasemdir um þetta. Þetta er hugsanlega framkvæmanlegt í þeim sveitarfélögum á þeim svæðum þar sem uppbygging hefur verið á þessu sviði á undanförnum árum en það á einfaldlega ekki við alls staðar.

Ég veit að hæstv. ráðherra er búinn að fullnýta rétt sinn til að mæta í andsvör við mig en þetta er þá bara tilefni til annarrar umræðu á þessum vettvangi.