138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

úrskurður ráðherra um suðvesturlínu.

[13:53]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrirspurnina. Hún fjallar hér um aðskiljanleg lögbrot, eins og hún orðar það. Í fyrst lagi varðar það andmælarétt Norðuráls. Framkvæmdin var tilkynnt af hálfu Landsnets til Skipulagsstofnunar. Framkvæmdaraðili suðvesturlínu er sem sé Landsnet og ákvarðanirnar beinast allar að Landsneti. Taldi þá umhverfisráðuneytið að Norðurál væri ekki aðili máls. Það var ákvörðun sem tekin var þegar kæran barst til umhverfisráðuneytisins í apríl sl.

Í öðru lagi nefnir þingmaðurinn málshraðann og má til sanns vegar færa að hér er farið nokkuð fram yfir úrskurðarfrest ráðherra vegna kærumála. Hins vegar er það svo að tafir valda ekki ógildingu ákvarðana eða stjórnsýslumála samkvæmt dómahefð enda væri málum þá dálítið undarlega fyrir komið að því er varðar réttaröryggi eða tafir á málsafgreiðslu. Þá væri hægt að aflétta lögboðinni úrskurðarskyldu ráðherra um leið og tímafrestur væri runninn.

Hins vegar er það hárrétt hjá þingmanninum að þetta er áhyggjuefni hjá okkur í stjórnsýslunni yfir höfuð hversu oft frestir eru rofnir að því er varðar úrskurði. Umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemdir við það við ýmis ráðuneyti og þá sérstaklega umhverfisráðuneytið þar sem við erum að taka þessi mál til sérstakrar skoðunar.

Varðandi kærufrestinn nefndi þingmaðurinn að kæran væri ekki nægilega snemma komin fram vegna þess að hún kemur í hús fjórum dögum eftir að kærufrestur rennur út. En samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga dugar að kæran sé komin til stjórnvaldsins eða afhent pósti áður en fresturinn rennur út þannig að það er ekki móttökustimpill ráðuneytisins (Forseti hringir.) sem sker úr um það heldur póststimpill kærunnar sem er á síðasta degi frestsins.