138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

17. mál
[16:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi kostnað við þýðingar þá get ég ekki svarað því nákvæmlega. Ákveðnar tölur hafa verið nefndar fyrir þýðingu á öllum pakkanum og þar hafa menn nefnt ýmist 2 eða 5 millj. en ég ætla ekki að fara út í það hér. Ég geri þó ekki ráð fyrir að þetta verði upphæðir sem ráðuneytið ræður ekki við. Það hefur lýst því yfir að það beri ábyrgð á þessu og ég mun jafnframt kanna hvort hægt sé að dreifa þessari vinnu víðar um landið o.s.frv. Ég er reyndar búinn að fá fullt af fyrirspurnum ef út í það er farið.

Ég veit að aðrir ráðherrar eru þegar komnir með í gang með hliðstæða vinnu. Hvort það verður síðan samræmt á eftir að koma í ljós. Það er þó mín skoðun að það ætti að vera samræmt. Að mínu mati á að gera þetta svona og ég hef trú á því að fleiri ráðherrar muni einnig gera það þótt þeir beri ábyrgð á því.

Varðandi Brussel-valdið þá legg ég áherslu á að við erum að setja hér íslensk lög. Það er þannig með lagasetningu, meira að segja gagnvart íslenskum dómstólum, að fólk getur rekið mál sín gagnvart dómstólum ef það telur að lögin taki ekki á þeim með réttmætum hætti. Ég get ekki komið í veg fyrir að Brussel-vald hv. þingmanns reki hér mál. Þetta verða íslensk lög og þau munu standa. Það má sækja þau fyrir dómstólum, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, en ég hef enga trú á öðru og hef leitt rök að því að þau standi hér.

Varðandi kostnað við heilbrigðiseftirlitið þá er (Forseti hringir.) í sjálfu sér ekki gert ráð fyrir að það auki kostnað, það ætti þá frekar að vera í hagræðingarskyni, (Forseti hringir.) frú forseti.