138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

atvinnumál.

[13:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ákaflega fróðleg umræða í dag, ekki síst yfirlýsingar hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur um hvenær ákvörðun var tekin um að gæta ekki hagsmuna íslensku þjóðarinnar í loftslagsmálum. Ég kannast a.m.k. ekki við að sú ákvörðun hafi verið tekin í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og vísa þeim fullyrðingum þingmannsins til föðurhúsanna.

Það hefur oft verið talað um að menn noti ýmislegt til heimabrúks. Nú hefur hæstv. umhverfisráðherra komið með yfirlýsingar um að við munum ekki sækjast eftir íslenska ákvæðinu áfram í Kaupmannahöfn og mér skilst helst að það sé vegna þess að henni finnist hallærislegt að þurfa að biðja um eitthvað annað en allir hinir hafa, en það er önnur saga.

Íslenska stjórnsýslan er nú á kafi, eins og við vitum, við að svara 2.500 spurningum til Evrópusambandsins. Hverju skyldi umhverfisráðuneytið svara Evrópusambandinu um hvort við ætlum að halda áfram íslenska ákvæðinu eða ekki? Þá segir reyndar að íslenska ríkisstjórnin mundi alveg kjósa það að við þyrftum ekki að halda þessu áfram. En svo segir í þessu plaggi — og ég segi sem betur fer — að Ísland ætli að halda opnum þeim möguleika að hafa þetta sérákvæði og hefur lagt fram tillögur í þeim efnum varðandi þetta mál. Er ráðherrann að tala við kjósendur Vinstri grænna hérna heima þegar hún segir: Við munum ekki sækjast eftir íslenska ákvæðinu? En við Brussel-valdið, sem var svo mikið til umræðu í gær, segir hún: Við ætlum að reyna að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar, af því að það hlýtur að líta betur út gagnvart þeim. Hvort er rétt, virðulegi forseti, það sem ráðherrann notar til heimabrúks eða það sem ráðherrann skrifar til Evrópusambandsins?