138. löggjafarþing — 7. fundur,  14. okt. 2009.

aðsetur embættis ríkisskattstjóra.

36. mál
[15:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Já, það getur vel komið til greina, en það er ekki inni í þessum áformum núna. Hér er verið að sameina landið og gera það að einu skattumdæmi. Það er að mínu mati löngu tímabært. Það eru allar tæknilegar forsendur fyrir því að meðhöndla Ísland sem eitt skattumdæmi. Obbi framtala er kominn inn á netið og það er hægt að vinna úr þeim hvar sem er á landinu. (BJJ: Á landsbyggðinni.) Ef það á nú einhvers staðar við að nýta sér kosti og möguleika fjarvinnslu og tækniframfarirnar er það hér. Þarna eru öll landamæri horfin.

Það er nákvæmlega þannig sem þetta er útfært í tillögum starfshóps sem skilaði til mín tillögum um breytta verkaskiptingu í skattkerfinu þar sem þetta er lagt til. Þar er ítarlega bent á kosti þess að verkaskipta þessu og nota öflugar einingar og skrifstofur úti um landið til að sinna tilteknum þáttum verkefnisins. Þannig gætu menn séð fyrir sér að öll úrvinnsla á tekjuskatti eða launamannaframtölum væru á einum stað, allur virðisaukaskattur á öðrum stað, málefni fyrirtækja á þeim þriðja, landbúnaðarframtöl á þeim fjórða o.s.frv. Áformin eru þau að dreifa þessari starfsemi um landið eins og verið hefur, hafa öflugar skrifstofur í landshlutunum og umdæmunum og vinna þetta með sama hugarfari og ég fór yfir hér áður, að þó svo að breytingar verði og þetta verði gert að einni einingu og einhverjir missi stöðu sem embættismenn bjóðist þeim þá að vera skrifstofustjórar í staðinn eða hvernig sem það nú er. Einhverjir fara á eftirlaun eins og gengur. En að sjálfsögðu verður þessi mannafli, aðstaðan, tæknin og þekkingin nýtt.

Það eru engin áform og minni en engin áform um að fara að færa eitthvað sérstaklega til höfuðborgarsvæðisins. Reyndar er það þannig að í þessu tilviki og reyndar fleirum verða sennilega umfangsmestu breytingarnar einmitt á höfuðborgarsvæðinu. Hér hafa t.d. verið reknar tvær mjög stórar skattstofur plús embætti ríkisskattstjóra og svo ríkisskattrannsóknastjóri. Það eru ekki áform um að færa aðsetur núverandi ríkisskattstjóra, enda er í starfi góður ríkisskattstjóri og til slíks yrði ekki gripið nema þá þegar vel stæði á, t.d. í tengslum við mannabreytingar eins og áður hefur heppnast vel og hv. þingmaður man kannski dæmin um, t.d. þegar Skógrækt ríkisins var flutt út á land í tengslum við það að nýr skógræktarstjóri tók við embætti. Ég útiloka að sjálfsögðu ekki að höfuðstöðvar skattsins geti í framtíðinni orðið þess vegna hvar sem er á landinu. Það hallar ekkert á í þeim efnum að ég vil hér eftir sem hingað til dreifa opinberri þjónustu og sé marga kosti þess.

Mér finnst reyndar, af því að við erum hér þingmenn landsbyggðarinnar að talast við, að við ættum þá líka að muna eftir því að hér er mikið atvinnuleysi og hér eru miklir erfiðleikar. Á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu er ástandið hvað verst. Við skulum þá líka hafa það í huga og gleðjast yfir því að þrátt fyrir allt komast stærstu hlutar landsbyggðarinnar mun betur frá þessu hvað atvinnuástandið snertir. Við skulum ekki tala hér í einhverri gamalli mynd um að atvinnuleysið sé allt á landsbyggðinni og straumurinn liggi allur hingað. Það er akkúrat öfugt núna. Eru ekki um 4.000 manns búin að flytjast af höfuðborgarsvæðinu á undanförnum missirum út á landið? Atvinnuleysið — (BJJ: Og til útlanda.) Ja, það hafa reyndar miklu fleiri flutt til landsbyggðarinnar en til útlanda, hv. þingmaður, þegar það er skoðað og landflóttahræðslusöngurinn sem sumir fóru upp með. Hátt í jafnmargir hafa flutt til landsins á móti og hafa farið frá því. Ástandið er ekki verra en það (BJJ: Er það?) þegar erlendir ríkisborgarar eru frátaldir. Ég held að menn ættu að fara varlega í ótímabæran söng um slíkt.

Ég held að t.d. skatturinn sem hér er nefndur og reyndar alveg eins þess vegna lögreglu- og sýslumannamálin feli í sér mikil tækifæri fyrir landsbyggðina ekkert síður en ógnanir. Þetta er allt spurning um hugarfar og hvernig menn fara í breytingarnar. Við höfum séð mörg ágæt og glæsileg dæmi um það hvernig tilteknir verkþættir hjá opinberum stofnunum hafa verið færðir út á land. Það munar um það, hvort sem þar er talað um Hvammstanga, Sauðárkrók eða Siglufjörð þar sem er umfangsmikil fjarvinnsla, annar eða þriðji stærsti vinnustaðurinn í bænum sennilega, akkúrat af því tagi eins og hv. þingmaður þekkir vel. Við skulum ekki tala eins og allt sé ómögulegt og svart í þessum efnum.

En ef við ekki komumst upp úr hjólförunum og þorum ekki að fara í endurskipulagningu og hagræðingu og gera breytingar núna við þessar aðstæður, hvenær gerist þá eitthvað? Ég verð að segja alveg eins og er að stundum finnst mér íhaldssemin sem kemur upp í mönnum þegar farið er að ræða um þessa hluti dálítið mikil. Það verð ég bara að segja. Við verðum að þora að takast á við hlutina af bjartsýni og kjarki og vera ekki endalaust að ætla hvert öðru það að við séum að gera það að gamni okkar að ástæðulausu, (Forseti hringir.) þaðan af síður með (Gripið fram í.) illum hug í einhvers garð.