138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

mögulegt lán frá Norðmönnum óháð AGS.

[11:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Orðið „glópalán“ hefur fengið alveg nýja merkingu í þessari Bjarmalandsför framsóknarforustunnar, ferð þeirra framsóknarbræðra minnir á Don Kíkóta og Sansjó Pansa sem börðust við ímyndaða óvini (SDG: Stjórnin …) með ímynduðum norskum lánalínum til að bjarga hinni fögru Dúlsíneu, fjallkonunni Íslandi, úr nauðum. (Gripið fram í.)

Þessi gamansaga er orðin nokkuð langdregin (HöskÞ: Drepa niður …) og tími til kominn að framsóknarmenn hætti í þessum óraunsæislegu draumórum sínum og komi í verkin með okkur (Gripið fram í.) sem blasa við á Íslandi. (Gripið fram í: Við erum í verkunum …) Við gerum öll mistök. Stundum misskiljum við eitthvað, við segjum tóma vitleysu. Við verðum að athlægi og skömmumst okkar alveg niður í tær, (Gripið fram í.) alveg eins og framsóknarforustan núna sem hélt (Gripið fram í.) að hún hefði fengið 2.000 milljarða lán sem hvorki var 2.000 milljarðar né lán, hljóp niður í forsætisráðuneyti til að tilkynna þeim að þeir hefðu bjargað landinu, með yfirlýsingu frá norskum fjárlaganefndarmanni sem einhver áhöld eru um að sé í fjárlaganefndinni, (HöskÞ: Af hverju vildi …?) sem er alveg á móti skilyrðunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (Gripið fram í.) þó að hann hafi sjálfur undirritað það í maí að þetta ætti að vera skilyrði. Og þegar maður hleypur svona á sig, (Gripið fram í.) hv. formaður Framsóknarflokksins, í litlu landi eins og Íslandi á maður bara að viðurkenna það. Það er ekkert að því að hafa fengið óraunhæfa hugmynd um það hvernig megi bjarga landinu. (Gripið fram í.) En að reyna að breiða yfir mistökin og óraunsæið og vitleysuna (Gripið fram í.) með því að fara í ferð eins og farin var til Noregs (Gripið fram í.) getur auðvitað bara aukið vandræði okkar. Sem betur fer segir Ríkisútvarpið okkur að enginn alvörufjölmiðill hafi fjallað um ferðina til Noregs og við hljótum að hvetja framsóknarmenn til að (Gripið fram í.) binda nú enda á þetta leikrit vegna þess að það er ekkert pláss fyrir dagdrauma í miðri martröðinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)