138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:16]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í tilefni af þessum orðum hv. þm. Helga Hjörvars vil ég taka fram að ég lít þannig á að við gætum haldið áfram samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn án þess að það byggði á því að við mundum taka frekari lán hjá sjóðnum. Við höfum nú þegar dregið á nokkur hundruð milljóna dollara lán hjá sjóðnum. Ég hef skilið það þannig að jafnvel þótt samstarfinu við sjóðinn yrði hætt mundum við geta haldið því láni og endurgreitt það á þeim forsendum sem lánsskilmálarnir ganga út frá. Í samstarfi við sjóðinn tel ég að við getum fengið aðgang að sérfræðiþekkingu. Við getum fengið milligöngu um að efla þennan trúverðugleika sem svo oft er minnst á í umræðunni en lántökurnar þurfa ekki allar að byggja á lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það gæti komið til skoðunar að byggja á lánsloforðum frá Norðurlöndunum, eins og við gerum augljóslega í dag, eða eftir atvikum frá öðrum sem eru tilbúnir til þess að veita okkur liðsinni.