138. löggjafarþing — 8. fundur,  15. okt. 2009.

nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

3. mál
[12:45]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Mig langar til þess að gera nokkrar athugasemdir við söguskoðunina. Það er alveg rétt að skattar hafa verið lækkaðir hér síðasta áratuginn en hv. þingmaður gleymdi að minnast á að megnið af erlendum skuldum Íslendinga voru greiddar upp. 200 milljarðar voru lagðir inn á reikning í Seðlabanka Íslands, lífeyrisskuldbindingar voru greiddar niður og farið var út í gríðarlega miklar framkvæmdir í vegamálum, fjarskiptamálum og öðrum málum sem lúta að innviðum samfélagsins. Þá voru útgjöld til velferðarmála aukin gríðarlega mikið eða um 80% á sjö, átta ára tímabili o.s.frv.

Hins vegar er rétt hjá hv. þingmanni að skattstofnarnir reyndust ekki jafn sterkir og lagt var upp með. Þau útgjöld sem búið var að stofna til reyndust ekki hafa nægilega sterka tekjupósta. Það er líka ljóst að ef þessar ráðstafanir á tekjuhliðinni hefðu ekki verið gerðar værum við í verulega meiri vanda núna.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Hvað annað en að lækka álögur á landsmenn hefði hv. þingmaður viljað gera? (Forseti hringir.)