138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

lausn Icesave-deilunnar.

[15:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vonast til þess að frumvarpi varðandi niðurstöðu samningaviðræðna um Icesave hina síðari verði dreift á þinginu á þessum fundi og væntanlega kemst það svo til umræðu á morgun eða næstu daga þannig að þá gefst tóm til að ræða það málefni sem hv. þingmaður tekur upp með hefðbundnum hætti á dagskrá, en hann tekur upp einn afmarkaðan þátt þessa máls. Ég er ekki sammála útlistun hans í þessum efnum. Ég tel að meginfyrirvarinn lagalega, um að Ísland hafi ekki viðurkennt að fyrir hendi væri fyrir fram ótvíræð lagaskylda til að ábyrgjast innstæður með þeim hætti sem krafist hefur verið af gagnaðilum okkar — ég tel að staða þess lagalega áskilnaðar af hálfu Íslands sé sterkari en hún hefur áður verið þvert ofan í það sem hv. þingmaður telur. Það byggi ég á því að allt fram að þessu hefur verið um algerlega einhliða áskilnað af Íslands hálfu að ræða sem engar undirtektir hefur fengið neins staðar frá. Frágangur málsins nú felur í sér að gagnaðilar okkar viðurkenna tilvist þessarar lagalegu óvissu, viðurkenna að málinu er lokað þrátt fyrir hana með þeim hætti sem býsna algengt er í flóknum deilumálum af þessu tagi. Ef menn velja þá leið að semja sig frá þeim þá halda menn því eftir sem áður til haga og láta það liggja skýrt fyrir að það feli ekki í sér viðurkenningu. Þetta þekkir hv. þingmaður örugglega sem löglærður maður að er iðulega andlag lausna í erfiðum deilumálum, að menn leggja hinn lagalega ágreining, óvissuna, til hliðar, menn gera með sér samkomulag um lausn tiltekins deilumáls. Eftir stendur ágreiningurinn eða vafinn og úr honum fæst eftir atvikum mögulega skorið síðar eða ekki. Þannig nákvæmlega er gengið frá þessu máli og þetta er byggt á samráði við marga löglærða menn sem vísuðu í fordæmi fyrir því að útkljá vandasöm mál við sambærilegar aðstæður með þessum hætti.