138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[16:01]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Í nýlegri grein sem Gunnar Tómasson hagfræðingur sendi þingmönnum segir að íslenska þjóðarbúið sé með fjórfalt hærri erlenda skuldastöðu en þau 50–60% af landsframleiðslu sem Harvard-prófessorinn og fyrrverandi aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Kenneth Rogoff, segir vera mjög erfiða og nánast ómögulega viðureignar. Það er alveg ljóst að aðgerðaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þarfnast róttækrar endurskoðunar. Greiðsluþrot þjóðarbúsins verður vart umflúið. Því spyr maður sig hvort ástæða sé til að skuldsetja þjóðina enn frekar með því að þiggja fleiri lán frá sjóðnum. Það ætlar að verða samfélaginu okkar jafndýrkeypt og öðrum þjóðum að vera í samstarfi við sjóðinn sem enn hefur ekki tekist að sýna fram á jákvæðan árangur við endurreisn samfélaga sem hafa kallað eftir aðstoð frá sjóðnum. Það er alveg ljóst að með því að lúffa fyrir þeirri kúgun sem sjóðurinn hefur beitt okkur við að knýja fram ásættanlega niðurstöðu um Icesave sem hugnast Bretum og Hollendingum höfum við slegið tóninn fyrir frekara samstarf. Landstjórinn fagnar örugglega hve auðveldlega tókst að beygja okkur og niðurlægja.

Sú mjúka meðferð sem við fengum í upphafi var með sanni köttur í sekknum því að þau fjárlög sem þingið mun glíma við á næstu mánuðum eru skólabókardæmi um hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðsprógrammið er í framkvæmd. Ráð hans er eins og termítar á innviði velferðarsamfélagsins og alveg ljóst að við munum koma verulega sködduð undan því. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að það er engin sérmeðferð fyrir okkur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun fara alveg jafnilla með okkur og önnur lönd.

Það er löngu tímabært að afþakka lánið og prógramm sjóðsins. Fórnarkostnaður Icesave og velferðarkerfisins er orðinn allt of hár. Það eru til önnur úrræði. Við verðum að hugsa stærra. Það er engu samfélagi hollt að semja út frá ótta.

Hæstv. ríkisstjórn virðist dáleidd af skrattanum á veggnum sem gaggar holum rómi um endalok sem þó eru aldrei verri en þjóðargjaldþrot, og þó að það sé slæmt er frekari skuldsetning e.t.v. enn verri ef við getum ekkert gert annað en að borga vexti og vaxtavexti af erlendum lánum um ár og áratugi.