138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Ísland.

[16:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Enn þá virðist vera til staðar gríðarlegur misskilningur á því hvað alþjóðasamfélagið er. Alþjóðasamfélagið virðist að mati sumra þingmanna hér, einkum úr Samfylkingu, vera einhvers konar skipulagður samsafnaður ríkja sem tekur ákvarðanir á fundum og útilokar eitt og eitt ríki ef það gerir ekki eins og félagið ætlast til. Það er ekki svoleiðis. Alþjóðasamfélagið er ekki skipulagt með þessum hætti, en hins vegar geta ríki einangrast og orðið út undan í þessu alþjóðasamfélagi ef þau gera eins og stefnir í með Ísland, skuldsetja sig um of, sérstaklega ef þau skuldsetja sig í erlendri mynt. Þannig hafa ríki dottið út úr alþjóðasamfélaginu. Þannig hætta þau að geta verið virkir þátttakendur í alþjóðaviðskiptum. Þannig hætta þau að geta tekið þátt í samskiptum um menntamál og vísindasamstarfi. Þannig hætta þau að fá fjárfestingu og geta ekki lengur tekið þátt í nokkru því sem fellur undir alþjóðasamstarf. Ef menn gera sér grein fyrir því hvernig þetta liggur og hætta að ímynda sér að við eigum í höggi við eitthvert félag, einhvern félagsskap sem ætlast til þess að við hlýðum, geta menn kannski talið í sig örlítinn kjark. Ekki veitir af.

Hvernig stendur á því að menn hafa í þessari umræðu ekki getað sýnt fram á það með nokkru móti hvað á að gera við þessa lánveitingu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum?

Reyndar er enn farið að tala um að við þurfum þetta til að borga einhver eldri lán. Þetta eru alveg ný tíðindi. Erum við sem sagt að reyna að endurfjármagna einhver lán sem við teljum okkur ekki geta staðið undir? Fram að þessu hefur því nefnilega verið haldið fram að það ætti ekkert að nota þessa peninga. En ef við ætlum að fara að eyða peningunum í að halda uppi gjaldmiðlinum eða endurfjármagna einhver önnur lán hlýtur myndin að breytast töluvert. Og þá hljótum við að hafa verulegar áhyggjur af því sem Gunnar Tómasson og Joseph Stiglitz og fleiri hagfræðingar hafa varað okkur við, þá hljótum við að óttast að skuldastaðan sé orðin slík að við ráðum ekki við hana.

Þannig þarf það þó ekki að þróast, Ísland skilar alveg gríðarlegum hagnaði upp á hvern einasta dag. Við flytjum út miklu meira en við flytjum inn. En hvað verður um þennan afgang? Hvers vegna nýtist hann ekki til að styrkja gengi krónunnar? Hvers vegna getum við ekki lækkað vextina? Það er allt vegna þessarar að miklu leyti óþörfu skuldsetningar sem virðist eingöngu til þess ætluð að ganga í augun á einhverju ímynduðu félagi, ganga í augun á einhverjum til þess að virðast stærri en við erum eða kaupa sér ímynd, rétt eins og bankarnir gerðu þegar þeir voru lentir í hvað mestum kröggum. Það er stóra kaldhæðnin í þessu öllu saman. Hér er verið að gera nákvæmlega sömu mistök og bankarnir gerðu á lokasprettinum, fá dýr lán, allt of há lán sem menn geta ekki staðið undir, til að kaupa sér ímynd, kaupa sér gálgafrest og gera það að verkum að fallið verður enn þá stærra þegar þar að kemur.