138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[17:06]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvort til afskrifta kemur fer bara eftir því hver efnahagsþróunin verður. Lánafyrirtækin taka þátt í þessu vegna þess að þau sjá sér hag í því að finna þessa leið til að búa til farveg fyrir meðferð þessara mála, koma lánunum í greiðanlegt horf. Hitt er jafnljóst að almenningi eru gefin þau fyrirheit að ekki verði greitt meira en sanngjarnt er, þ.e. það verður ekki greiddur höfuðstóll. Fólk kvartar í dag yfir stökkbreyttum höfuðstól. Það er alveg rétt, hann er áfram stökkbreyttur en hann verður ekki greiddur nema launaþróun vaxi svo umfram neysluverðsvísitölu að það verði sanngjarnt að hann verði greiddur. Með öðrum orðum, stærsta tryggingin sem í þessu felst er að launaþróunin ræður því hvort þú greiðir (Forseti hringir.) þær verðlagshækkanir sem orðið hafa á undanförnum missirum og fólk gerði ekki ráð fyrir. Að öðru leyti verð ég að fá að svara spurningu þingmannsins í seinni ræðu minni.