138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Áður en ég lýsi yfir mikilli ánægju með þetta frumvarp, sem ég mun gera, verð ég að kvarta yfir því hvað það kemur seint. Það kemur alla vega hálfu ári of seint. Það hefði getað komið mikið fyrr ef menn hefðu ekki verið að dunda sér við sitthvað annað eins og seðlabankalög, að skipta um seðlabankastjóra, lög um atkvæðagreiðslur og stjórnarskrá, aðildarviðræður um Evrópusambandið og síðan Icesave-málið sem er svo sem nauðsynlegt að taka á en allan þann tíma hefur þetta mál beðið. Hér er það þó komið og ég er mjög ánægður með það. Ég lýsi yfir ánægju minni með þetta frumvarp, það er ágætisframtak. Á því eru ákveðnir agnúar sem ég nefni aðeins en ég býst við að hv. félags- og tryggingamálanefnd muni fara ítarlega í gegnum málið.

Kannanir hafa sýnt að staða 20% heimila er slæm eða mjög slæm, staða 10% þeirra er sennilega mjög slæm og 5% kannski vonlaus. Hins vegar hafa kannanir líka sýnt að 45% heimila leggja fyrir sem sýnir að staðan almennt séð er ekkert óskaplega slæm, sem betur fer því að þeir sem hafa góða stöðu geta styrkt hina til að komast yfir erfiðasta hjallann. Það sama á við um fyrirtæki. Kannanir hafa líka leitt í ljós að 20% eða fimmtungur fyrirtækja eru í slæmum málum og sum hver eru í mjög góðum málum, eins og sum sjávarútvegsfyrirtæki sem ekki eru með miklar skuldir eða skuldir sem ekki tengjast rekstrinum fyrst og fremst, ferðaþjónustan og áliðnaðurinn. Það gengur allt ljómandi vel. Þarna er þó ákveðinn hópur fyrirtækja og einstaklinga sem verður að bjarga og hjálpa yfir þennan hjalla. Það varð nefnilega forsendubrestur, eins og menn segja, og frumvarpinu er ætlað að laga þann forsendubrest þar til hann er kominn í lag. Menn virðast gleyma því að ef laun hækka aftur umfram verðlag og ef gengið lagast aftur er forsendubresturinn ekki lengur til staðar. Þá getur í rauninni enginn kvartað og það er einmitt það sem gerist, menn tengja þetta saman.

Lögin um greiðsluaðlögun sem við samþykktum í vor voru gölluð, þau voru niðurlægjandi en mér sýnist að frumvarpið stefni að því að gera þetta miklu einfaldara. Það á við um 5.000 manns eða heimili sem eru 5% af heimilunum í landinu og eins og ég gat um áðan eru þau heimili í verulega miklum vanda. Það er engum greiði gerður með því að þeim sé ekki hjálpað vegna þess að ef þau fara á hausinn borga þau ekki neitt en ef þau fá aðstoð greiða þau hugsanlega og væntanlega eins og þau mögulega geta. Þar er reyndar ákveðin gildra sem þessi nefnd sem sett var á laggirnar — og ég vona að verði mjög dugleg í að vinna hratt og vel því þetta er búið að bíða allt of lengi — þ.e. hugsanleg misnotkun. Tökum sem dæmi náunga sem er illa settur, búinn að keyra allt í kaf en er með glimrandi góðar tekjur, kannski með eina milljón á mánuði, en hann bara nennir þessu ekki lengur. Hann mætir ekki nokkra daga í vinnu, lætur segja sér upp og verður atvinnulaus og þá gerist það að skuldirnar verða niðurskrifaðar hjá honum, allt fellur í ljúfa löð og öll leiðindin eru búin. Þegar hann síðan er kominn yfir þennan hjalla ræður hann sig aftur í stöðuna þar sem hann var með milljón á mánuði í laun. Auðvitað er leiðinlegt að menn skuli þurfa að upplifa svona en meira að segja þegar ástandið var sem verst í vetur voru menn staðnir að því að misnota atvinnuleysistryggingakerfið. Það er bara þannig. Sumir misnota sér svona stöðu en við skulum vona að það takist að girða fyrir svona lagað eins og hægt er.

Síðan vil ég nefna eitt. Það er spurningin um Búseta, eða íbúðarhúsnæði á félagslegum nótum, sem er í rauninni í samkeppni við leigumarkaðinn. Nú er leigumarkaðurinn orðinn ódýrari og þá er það spurningin hvort ríkið eigi að grípa inn í. Þetta þarf að ræða, hvort ríkið eigi að grípa inn í og lækka leiguna hjá þessum félagslegu íbúðakerfum þannig að þau standi betur í samkeppninni við frjálsa íbúðamarkaðinn sem er sem betur fer mikið að lagast.

Í umræðunni hefur orðið mikill misskilningur á eiginleikum afskriftasjóðs og það er með ólíkindum að maður skuli þurfa að hlusta á þetta. Afskriftasjóður er afskriftasjóður, hann er ekki eign. Hans hlutverk er að mæta fyrirséðum afskriftum. Segjum að það séu 10% í afskriftasjóði, sem ég hugsa að sé raunin varðandi íbúðalánin hjá bönkunum, þá er búið að reikna út að 10% af lánunum greiðast ekki. Önnur munu væntanlega greiðast að hluta. Þó að maður lækki öll lánin um 10% munu þessi 10% eftir sem áður ekki greiða neitt. Þá er maður kominn með meiri skuld en var og fullt af fólki búið að fá 10% afskrift sem þurfti ekki á því að halda því það gat borgað. Maður er svo hissa á að það skuli vera talað um afskriftasjóð sem einhverja eign að maður er alveg gáttaður.

Varðandi samninga þá kíkti ég á samninga Landsbankans nýja við gamla bankann. Þar er gert ráð fyrir því að eftir 2–3 ár verði gert upp hvað mikið greiddist. Þá á að bæta við ef meira hefur innheimst en varlegt mat á afskriftasjóði var. Kröfuhafar fara ekki að gefa Íslendingum peninga. Ég er alveg gáttaður. Reynsla manna af Icesave ætti að hafa kennt þeim að útlendingar gefa Íslendingum ekki peninga. Þeir láta þá heldur borga langt umfram það sem þeir eiga að borga en það er önnur saga. Ég ætla að vona að maður þurfi ekki að hlusta mikið á það þegar einhver ætlar að breyta afskriftasjóði í eign. Hann er aldrei eign og getur ekki verið það. Ef hann væri eign mundi kröfuhafi hirða hann.

Staða fólks er mjög mismunandi. Ég fékk upplýsingar um sex lán, þ.e. greiðsluröðina. Það var heilmikið vesen að fá þessar upplýsingar, bara að fá greiðsluröðun fólks sem hafði tekið gengistryggð lán, ég fékk þær eiginlega í gegnum klíku. Það sýndi sig að þetta var afskaplega mismunandi, eins og hvítt og svart. Einn hafði tekið bílalán þegar verst stóð árið 2007 í jenum og svissneskum frönkum, það hafði upphaflega verið með 4% vöxtum en er núna komið upp í tæplega 7% vexti, fór hæst upp í tæplega 8 eða 9% vexti, ofan á jen og svissneska franka, frú forseti. Það er alveg með ólíkindum. Þetta eru sennilega dýrustu lán í heimi fyrir utan þau íslensku. Aðrir voru með mjög lága vexti, allt niður í 1% vexti sem höfðu farið lækkandi eins og vextir hafa gert almennt í heiminum. Þeir aðilar stóðu ekki mjög illa, sérstaklega þeir sem tóku gengistryggð lán fyrst í árslok 2004. Þeir höfðu fyrst grætt á öllu saman, borgað minna. Ég reiknaði þetta út eins og þetta hefði verið verðtryggt frá byrjun og setti meira að segja inn skiptigjald sem maður getur líka hugleitt, að láta menn borga fyrir að skipta yfir í verðtryggt lán. Mér finnst það sanngjarnt af því að þeir tóku ákvörðun um að fara í verðtryggt lán en þegar þeir hafa tapað geta þeir ekki látið ríkið borga tapið. Það mundi réttlæta þetta ef þeir borguðu skiptigjald, annaðhvort krónutölu eða prósentu. Staðan er sem sagt misjöfn eftir lánstíma, skuldara og öðru.

Sértækar aðgerðir. Ég er búinn að ræða þær. Talað hefur verið um að fjármagnseigendur hafi verið tryggðir og það er rétt að innlán voru tryggð. Þau hafa reyndar rýrnað í verðbólgu eins og annað en enginn hefur staðið upp og æpt yfir því að á sama tíma og maður sem er með 10% í vexti borgar 1% í skatt er hann að tapa. Það hefur enginn áhuga á því af því að Íslendingar eru svo uppteknir af skuldurum. Þeir hafa aldrei áttað sig á því að til þess að einhver geti skuldað verður annar að spara. Íslendingar hafa aldrei fattað það. Þeir taka alltaf lán erlendis. Auðvitað þurfum við huga að sparifjáreigendum líka. Það er búið að tryggja þá nokkurn veginn með neyðarlögum en aðrir fjármagnseigendur töpuðu umtalsverðu. Það hefur enginn minnst á þá, um 60–70 þús. hlutafjáreigendur sem áttu hlut í bönkunum og alls konar fyrirtækjum og stofnfjáreigendur sem áttu í sparisjóðum og höfðu tekið til þess lán. Þeir fjármagnseigendur voru ekki tryggðir enda tóku þeir áhættu og allt í lagi með það en ég fullyrði að þeir sem tóku gengistryggð lán tóku líka áhættu. Þeir tóku lán í annarri mynt en þeir höfðu tekjur í. Ég man ekki hversu oft ég hef bent á það á undanförnum 5–6 árum hvað það er hættulegt. Hvorki einstaklingar né fyrirtæki eiga að taka lán í annarri mynt en þeir hafa tekjur í nema þá langi til að spila í Monte Carlo en þá eiga þeir líka að spila í Monte Carlo, það er miklu skemmtilegra.