138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:50]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin þakka fyrir þessa góðu umræðu og þann jákvæða tón sem hefur einkennt hana. Það er mjög mikilvægt að við ræktum samstöðuna á þessum tímum, reynum að ná saman um lausnir í þessum erfiða málaflokki og leggja áherslu á það sem sameinar okkur en ekki sundrar.

Einn af kostunum við þá aðferðafræði sem er valin er að við tryggjum að bankarnir hafi sömu hagsmuni og fólkið í landinu. Við upplifðum það í aðdraganda hrunsins að stóru bankarnir höfðu hag af því að veikja krónuna á sama tíma og almenningur hafði helst hag af því að hún styrktist. Núna róa allir í sömu átt. Þetta kerfi tryggir að lánastofnanirnar hafa af því mestan hag að laun hækki og efnahagslífið taki við sér. Það er mjög gott að hafa þannig umgjörð utan um lánastarfsemi í landinu að allir rói í sömu átt og að almenn velsæld sé sameiginlegt markmið okkar allra. Raunveruleg velsæld sem byggir á sjálfbærum grunni.

Hér hefur svolítið verið rætt um varúðarfærslurnar og af hverju ekki geti komið til flatrar niðurfellingar. Hv. þm. Pétur Blöndal rakti þetta ágætlega hér áðan. Auðvitað byggja varúðarfærslurnar milli gömlu og nýju bankanna á væntu útlánatapi og ef það reynist ekki verða munu kröfuhafar eins og hv. þingmaður rakti gera kröfu um hlutdeild í því sem þannig sparast. Við leysum ekki 10% atvinnuleysi með því að borga öllum 10% atvinnuleysisbætur heldur borgum við auðvitað atvinnuleysisbæturnar þeim sem eru atvinnulausir.

Ég held þess vegna að þessi umræða um almennar niðurfellingar sem fela í sér eftirgjöf skulda — að það fari okkur best að reyna að ná utan um þetta mál í sátt með því að fólk borgi í samræmi við það sem lagt var upp með. Hinn raunverulegi forsendubrestur væri ef sá möguleiki væri ekki fyrir hendi. Síðan mun framtíðin skera úr um hversu óraunsæ þessi skuldsetning er og hvort þessi höfuðstóll er virkilega ósanngjarn til lengri tíma litið. Ef hækkun launa gefur ekki tilefni til að þessar skuldir verði greiddar þá verða þær ekki greiddar. Þá vitum við það. Próf tímans sannar fyrir okkur að það var rétt að fella niður þennan höfuðstól.

Virðulegi forseti. Áðan var spurt aðeins út í hvað gerðist við atvinnuleysi og hvort fólk gæti áfram greitt inn á höfuðstól þessara lána. Því er til að svara að það er vandalaust að greiða áfram inn á höfuðstólinn. Hvað varðar atvinnuleysið er í frumvarpinu að finna ákvæði sem gerir Íbúðalánasjóði heimilt að bregðast við með sveigjanlegum hætti þegar tekjufall verður hjá fólki. Við vitum að þegar einstaklingur verður atvinnulaus munu ráðstöfunartekjur hans dragast verulega saman á komandi mánuðum. Því er full ástæða til þess að hvetja menn til að taka á slíkum aðstæðum fyrir fram og bregðast við, laga greiðslubyrðina að greiðslugetu og opna þá fyrir möguleika, eins og við gerum ráð fyrir að Íbúðalánasjóður geti gert, að fólk geti ráðstafað stærri hluta afborgunarinnar inn á jöfnunarreikninginn. Jöfnunarreikningurinn stækki þá bara tímabundið svo að við setjum fólk ekki í þá stöðu að lenda í vanskilum að óþörfu þegar það verður fyrir tímabundnum áföllum. Nóg er samt að glíma við afleiðingar atvinnuleysis eða tímabundins tekjumissis.

Að síðustu varðandi félagslegt húsnæðiskerfi. Áðan var nefnt mikilvægi þess að byggja upp slíkt kerfi og því er ég sammála. Við erum núna með stefnumörkun í húsnæðismálum á borðinu í félagsmálaráðuneytinu og ég vonast til að komast með það mál inn í þingið fljótlega. Þar horfum við til þess hvernig við verðum með fjölbreytt húsnæðiskerfi þar sem allt er í senn, gott leiguíbúðakerfi sem tryggir stöðugt framboð á leiguíbúðum, sem og eignaríbúðakerfi þar sem lánveitingar til eigin húsnæðis eru sjálfbærar, byggðar á raunverulegri fjármögnun á markaði en ekki á innantómum undirboðum eins og lánaframboð bankanna gerði því miður á síðustu árum.

Það sem hv. þm. Pétur Blöndal rakti nú síðast var álitamálið um hvernig eigi að bregðast við nú þegar almenn markaðsleiga hefur lækkað, hvort ríkið eða hið opinbera, það eru einkum sveitarfélög sem eiga félagslegt húsnæði — hvort rétt væri að slík leiga yrði lækkuð. Ég held að þá væri fyrst og fremst ástæða til þess að horfa til húsaleigubótanna. Mjög rausnarlegri viðbót við húsaleigubótakerfið var komið á í fyrra og hún hefur reynst ríkinu miklu dýrari en lagt var upp með. Við vörðum það kerfi núna við fjárlagagerðina og fram til miðs næsta árs mun það kerfi virka. Við erum að hefja samvinnu eða samráð við sveitarfélögin. Húsaleigubótakerfið er dálítið flókið viðfangsefni því það er vistað í fjármálaráðuneytinu og núna fer samgönguráðuneytið með sveitarstjórnarmálin en félagsmálaráðuneytið með húsnæðismál þannig að það er ekki einfalt að marka stefnu að þessu leyti. Við þurfum þó auðvitað að tryggja áfram mjög öflugt húsaleigubótakerfi því það er eitthvert mikilvægasta velferðarkerfi sem við höfum. Niðurskurður þar kemur strax fram í hækkandi útgjöldum í almannatryggingakerfinu vegna þess að húsaleigubætur teljast sem tekjur sem eru frádráttarbærar þegar kemur að útgreiðslu bóta almannatrygginga. Þeir sem njóta húsaleigubóta eru tekjulægsta fólk samfélagsins og þess vegna er mjög mikilvægt að við höfum áfram gott og öflugt húsaleigubótakerfi sem mætir þessari þörf. Ég bind vonir við að við náum að verja það áfram.

Að síðustu vil ég þakka þessa umræðu og minni á að það er mikilvægt að þetta mál fái góða vinnu í nefnd. Svona mál sem hefur mikil áhrif á hvernig afborganir fólks líta út um næstu mánaðamót þarf auðvitað að afgreiða sem allra fyrst enda hangir í sjálfu sér útprentun gíróseðla fyrir næstu mánaðamót á frágangi þessa máls. Ég legg fullur trúnaðartrausts í hendur félags- og tryggingamálanefndar að finna út úr því hversu hratt er hægt að komast í gegnum þetta verk.