138. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[18:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í húsaleigubótakerfið en það er afskaplega ófélagslegt. Það er miðað við tekjur í heild og mörkin eru mjög lág. Sex manna fjölskylda er eiginlega útilokuð frá þessu kerfi því hún fær engar húsaleigubætur vegna þess hvað tekjuviðmiðunin er lág. Fólk þarf jú ákveðið mikið til að lifa, sér í lagi sex manna fjölskylda.

Stórfjölskyldur fá því ekki húsaleigubætur. Þeir sem fá þær eru aðallega námsmenn. Þeir fá lánað fyrir framfærslunni, eru þar af leiðandi með lágar tekjur og uppfylla skilyrðin en fá líka lánað fyrir húsnæðinu úr lánasjóðnum. Ég held því að hæstv. ráðherra ætti að skoða virkilega hvernig þetta húsaleigubótakerfi virkar og hvað það er í rauninni andfélagslegt.