138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

breytingar á fyrirvörum við Icesave-samninginn o.fl.

[14:05]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég á svolítið bágt með að skilja hvers vegna það mál sem menn greiddu atkvæði um áðan að ræða ekki í dag er nú til umræðu, en látum það liggja milli hluta.

Ég kem hér upp vegna orða hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar um svörin til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hæstv. utanríkisráðherra hefur svarað því fyrir sitt leyti, en eins og hv. þingmaður veit fórum við vandlega yfir öll þessi svör í starfshópi utanríkismálanefndar um Evrópumál og ekkert var sent rafrænt til framkvæmdastjórnar fyrr en það hafði verið lesið yfir af starfshópnum. Auk þess, bara til að ítreka það vinnulag, er að sjálfsögðu hægt að bæta við og gera athugasemdir fram í tímann í þessu efni, bara svo þingheimur standi ekki í þeirri trú að öllu hafi verið lokað og engu verði breytt. Það er ekki þannig, frú forseti.