138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[14:42]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um afskriftir af höfuðstól íslenskra lána heimila og rekstrarfyrirtækja sem hljómar svo:

„Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að framkvæma nauðsynlegar afskriftir á lánum til íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja og nemi afskriftirnar að minnsta kosti 20% af höfuðstól láns. Skal þessum afskriftum vera lokið í síðasta lagi 1. desember 2009.“

Fyrir um átta mánuðum lögðu framsóknarmenn fram ítarlegar efnahagstillögur, þar á meðal annars var útlistað hvernig bregðast ætti hratt og örugglega við gríðarlegum skuldavanda íslenskra heimila og fyrirtækja í kjölfar bankahrunsins. Meðal þeirra aðgerða sem Framsóknarflokkurinn lagði til voru afskriftir á höfuðstól lána. Nánast öll lán íslenskra fyrirtækja og heimila voru annaðhvort tengd verðlagsvísitölu eða gengi erlendra gjaldmiðla. Með hruni íslenska bankakerfisins og í aðdraganda þess varð forsendubrestur á lánamarkaði. Fall á gengi íslensku krónunnar og mikil verðbólga í kjölfarið varð til þess að höfuðstóll umræddra lána hækkaði úr takti við allt sem áður hefur þekkst. Atburðir voru ófyrirsjáanlegir og færa má rök fyrir því að þeir hafi leitt til algjörs forsendubrests. Á það skal og bent að lánastofnanir voru í aðstöðu til að hafa áhrif á verðlagsþróun í landinu með útlánastarfsemi sinni og aðgerðum sem höfðu áhrif á gengi krónunnar. Þær athafnir fjármálastofnana höfðu áhrif á höfuðstól lána til hækkunar og sköpuðu ójafnvægi í getu lánveitenda og lántaka til að verja hagsmuni sína. Hinir ófyrirséðu atburðir sem og aðgerðir lánveitenda urðu þannig til að hækka höfuðstól lána óeðlilega mikið.

Það liggur nú fyrir að langstærstur hluti af því fjármagni sem kom erlendis frá er tapað. Skuldabréf bankanna hafa gengið kaupum og sölum á undanförnum vikum og mánuðum, oft fyrir aðeins brot af upprunalegu virði. Gera má ráð fyrir að útlán bankanna hafi þegar verið afskrifuð að verulegu leyti við uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna. Þetta hefur m.a. komið fram í orðum hæstv. félagsmálaráðherra. Því ættu að liggja fyrir upplýsingar um verðmat á lánasöfnum Nýja Kaupþings og Íslandsbanka, og tel ég núna Nýja Landsbankans, enda voru þær upplýsingar kynntar nýlega fyrir okkur í viðskiptanefnd.

Fullyrða má að afskriftirnar á lánasöfnunum eru hlutfallslega einhverjar hinar mestu frá því í heimskreppunni á fjórða áratug 20. aldar. Umfang afskrifta er slíkt að það gefur til kynna að búist sé við kerfishruni hjá íslenskum fyrirtækjum og heimilum, sem muni leiða til algjörs hruns í íslensku efnahagslífi. Ef ekkert verður að gert erum við hugsanlega að horfa fram á hrinu gjaldþrota hjá íslenskum fyrirtækjum og heimilum sem leiðir síðan til áframhaldandi hruns á eignaverði, sem síðan leiðir til enn frekari afskrifta. Þannig værum við komin inn í svona spíral, eins og Bandaríkin upplifðu einmitt í áðurnefndri kreppu.

Við þessar aðstæður eru það hagsmunir lánveitenda að afskrifa kröfur sínar að hluta til til að koma í veg fyrir að lántakendur fari í þrot og þeim gert fært að standa undir afborgunum og greiða sem mest til baka. Slíkt er sérstaklega mikilvægt við aðstæður þar sem eignir eru illseljanlegar og hætta á algjöru eignaverðshruni er veruleg.

Rannsóknir sem hafa verið gerðar í Bandaríkjunum á annars vegar því að frysta afborganir eða lengja í lánum, versus síðan að fara í höfuðstólslækkanir, hafa sýnt að höfuðstólslækkanir hafa skilað mun betri og raunverulegum árangri en að fara í almenna lækkun á greiðslubyrði.

Við framsóknarmenn teljum að ljóst sé að íslenska hagkerfið stendur ekki undir þeim lánum sem til þess voru veitt, auk þess er staðreynd að höfuðstóll lánanna hækkaði óeðlilega mikið. Talsmaður neytenda hefur fært fram mjög góð lagaleg rök fyrir því að þetta voru óeðlilegar hækkanir og algjör forsendubrestur. Því liggur fyrir að eðlilegast er að bregðast við með því að afskrifa hluta lána til lántakenda og framkvæma afskriftirnar með hlutfallslegri jafnri niðurfærslu á höfuðstól lánanna. Rétt er að leggja áherslu á að þessi leið leysir ekki vanda allra heimila og fyrirtækja þar sem fyrst og fremst er um að ræða leiðréttingu á forsendubresti og aðgerð til að styðja við efnahagslífið almennt. Gera verður ráð fyrir því að samhliða sé gripið til sértækra aðgerða fyrir þá sem verst eru staddir.

Ríkisstjórnin kynnti nýlega tillögur um almenna lækkun greiðslubyrði fasteignalána heimilanna. Flutningsmenn þessarar tillögu virða svo sannarlega vilja ríkisstjórnarinnar til að stuðla að tímabundinni almennri lækkun greiðslubyrði áðurnefndra lána, þá sérstaklega fasteignalána, en telja alls óvíst hvernig staðið verður við fyrirheit um mögulegar afskriftir í lok lánstímans. Tenging greiðslubyrði við greiðslujöfnunarvísitölu, eins og hugmynd ríkisstjórnarinnar gengur út frá, er einnig mjög varhugaverð þar sem byggt er á launaþróun og hagtölur sýna að launavísitala hefur hækkað langt umfram verðlagsvísitölu á undanförnum áratug. Markmið ríkisstjórnarinnar ætti að vera að losna við verðtryggingu en ekki að skipta einu gölluðu mælitæki út fyrir annað. Vandamálið er enn til staðar, það er allt of hár höfuðstóll lána og yfirveðsettar eignir. Einnig er enn óskýrt hvað gera skal fyrir fyrirtækin í landinu.

Í tillögunni er enn lagt til að byrjað verði að leiðrétta lánin með því að færa þau nokkuð aftur að þeirri upphæð þar sem vísitölubundnu lánin stæðu í ef ekki hefðu komið til hinir ófyrirséðu atburðir sem leiddu til forsendubrests. Sams konar tillaga hefur áður verið lögð fram af sömu flutningsmönnum á 137. löggjafarþingi.

Rökin fyrir þessari tillögu eru eftirfarandi:

Sanngirni. Með því að fara í svona almenna aðgerð er sanngirni gætt gagnvart lántakendum og höfuðstóll lána þeirra færður aftur að þeirri upphæð sem lántakandi miðaði við þegar hann gerði áætlanir sínar. Þetta á sérstaklega við hvað varðar verðtryggðu lánin. Slík aðferð er bæði sanngjarnari og framkvæmanlegri en sértækar aðgerðir, enda umfang vandans slíkt að ekki eru aðstæður til að leggja mat á hvert tilfelli fyrir sig og úthluta afskriftum með þeim hætti. Að auki mun þessi leið koma í veg fyrir siðferðileg álitamál og mismunun. Ég get ekki skilið betur en ríkisstjórnin sé að vissu leyti að taka undir þetta, eins og þeir leggja upp með almennar aðgerðir, því samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið er verið að tala um t.d. að skipta úr verðlagsvísitölu yfir í greiðslujöfnunarvísitölu varðandi verðtryggðu lánin, það verður ekki valkostur, maður þarf ekki að biðja um það, heldur verður það gert sjálfkrafa, þannig að þú þarft að biðja um að svo verði ekki gert í t.d. tillögum ríkisstjórnarinnar.

Vandinn verður viðráðanlegri. Jöfn leiðrétting lána mun þó ekki nægja öllum en áhrifin verða þó til að gera vandann viðráðanlegri og sértækar aðgerðir framkvæmanlegri. Þá ber að hafa í huga að skuldaleiðrétting er vel til þess fallin að endurvekja virkni hagkerfisins, m.a. með því að halda uppi neyslu. Þetta kallar líka fram ákveðna hagkvæmni fyrir lánveitendur. Þar sem vandinn er svo risavaxinn og hagkerfið í heild er verulega óstöðugt getur jöfn afskrift falið í sér hagkvæmni fyrir lánveitandann, rétt eins og verið væri að færa niður lán til eins fyrirtækis. Jöfn leiðrétting er vænlegasta leiðin til að halda hagkerfinu gangandi og hámarka heimtur lánveitenda. Fleiri geta staðið í skilum.

Eitt af því sem við sem sitjum hér á Alþingi höfum haft miklar áhyggjur af er hvað hefur dregið mikið úr greiðsluviljanum í samfélaginu, að fólk sem eins og við segjum „gjörsamlega getur borgað“ er svo reitt gagnvart þeirri ósanngirni sem það upplifir að hafa verið beitt, að það vill ekki borga. Með þessari tillögu teljum við að við séum að auka greiðsluviljann hjá öllum í samfélaginu. Hún verðlaunar ekki þá sem fóru óvarlega. Með hlutfallslegri jafnri afskrift er ekki verið að verðlauna þá sem fóru óvarlega í góðærinu. Í raun er því öfugt farið þar sem umrædd lausn gerir ekki annað en að færa ástandið í það horf sem hefði verið ef hinir ófyrirséðu atburðir hefðu ekki átt sér stað. Sértækar lausnir verðlauna hins vegar frekar þá óvarkáru og veita þeim meiri skuldaniðurfellingu ef lántakendum tekst að sýna fram á lægri tekjur. Ef litið er til framtíðar geta sértækar aðgerðir einnig skapað mjög hættulegan öfugan hvata í hagkerfinu. Það jafnar líka hlut skuldara gagnvart kerfinu.

Að lokum skal á það bent að við hrun fjármálakerfisins veittu íslensk stjórnvöld tryggingu fyrir öllum innstæðum í íslenskum bönkum. Umræddar innstæður voru notaðar til að standa undir stórum hluta þeirra útlána til að standa að einhverju leyti undir þeim hluta útlána sem nú eru töpuð og með því að verja stöðu innstæðueigenda án þess að koma til móts við skuldarana er ríkið í raun að mismuna þegnum sínum eftir því hvort viðkomandi lagði peningana sína inn í banka eða notaði þá til fasteignakaupa.

Ég skal hins vegar viðurkenna að við framsóknarmenn óttumst að langvarandi aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum heimila og fyrirtækja hafi hugsanlega valdið óbætanlegu tjóni. Við erum mjög hrædd um að hugsanlega hafi stjórnin þegar glatað gullnu tækifæri til að fara í almennar aðgerðir eins og við höfum talað fyrir hér á þremur þingum í tengslum við uppgjör milli gömlu og nýju bankanna. Það hefur hins vegar reynst mjög erfitt fyrir okkur í stjórnarandstöðu að fá nákvæmar upplýsingar um hvort svo sé eða ekki.

Eftir að afskriftatillögur framsóknarmanna komu upphaflega fram hélt ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna því fram að í þeim fælist einhver mesta eignatilfærsla sögunnar frá hinum efnaminni til þeirra efnameiri. Ekkert er fjær sanni. Með rökum má halda því fram að það hafi í raun verið aðgerðir ríkisstjórnarinnar í sumar og haust sem munu valda mestu eignatilfærslu sögunnar þar sem afskriftir erlendra kröfuhafa verða notaðar til að fella niður skuldir auðhringja og stórfyrirtækja en heimilin, einyrkjar og lítil og meðalstór fyrirtæki verði látin borga brúsann. Þá má benda á að nýkynntar aðgerðir félagsmálaráðherra munu einmitt gagnast þeim sem skuldsettu sig mest, ekki þeim sem varlega fóru.

Hins vegar teljum við og vonum svo sannarlega að ekki sé öll nótt úti og það séu leiðir til að fara í almenna niðurfærslu á höfuðstól lána. Ein af þeim sem ég mundi vilja ræða aðeins hér grundvallast að vissu leyti á þeirri útfærslu sem við lögðum fram í upphafi um að Íbúðalánasjóður mundi kaupa fasteignalánasöfn bankanna. Þessi lánasöfn eru nú metin — og þá erum við fyrst og fremst að horfa á fasteignalánasöfnin — á u.þ.b. 700 milljarða kr. og ef gert er ráð fyrir að lánasöfnin séu að verðmæti u.þ.b. 50–70% af uppreiknuðu virði, gæti Íbúðalánasjóður keypt þau á um 350 milljarða kr. Við yfirtökuna mundi myndast hagnaður hjá Íbúðalánasjóði sem er mismunur á yfirtökuverði og matsverði, eða um 30–50% á uppreiknuðu virði. Við þá aðgerð mundi myndast eigið fé sem veitti svigrúm til að leiðrétta allt lánasafnið um 200–250 milljarða kr. Þannig mundi sá afsláttur sem kröfuhafar gefa færast að einhverju leyti til lántakenda. Kostnaður ríkissjóðs vegna framkvæmdarinnar yrði hverfandi miðað við umfang málsins. Þetta yrði síðan gert þannig að gefinn yrði út nýr víkjandi lánaflokkur þar sem greiðsluflæði í íbúðalánum mundi speglast afborgun lánaflokksins. Kröfuhafar yrðu líklega ánægðir með pappíra með óbeinni ríkisábyrgð þar sem er meira öryggi og teldi minna í eiginfjárgrunni bankanna. Áhætta Íbúðalánasjóðs yrði lítil þar sem áhættunni yrði velt yfir í greiðsluflæði íbúðalánanna og þetta hefði væntanlega ekki teljandi áhrif á lánshæfismat ríkisins þar sem um er að ræða óbeina ríkisábyrgð. Með slíkri útfærslu verði lögð áhersla á samræmingu og sanngirni. Það væri hægt að bakka með vísitöluna til 1. janúar 2008, eða um rúmlega 20%. Allir mundu fá sömu meðhöndlun og félagsleg úrræði Íbúðalánasjóðs yrðu virk fyrir alla. Um samræmdar aðgerðir væri að ræða. Hægt væri að setja hámark á afsláttinn eins og við framsóknarmenn töluðum strax um í upphafi um 5–10 milljónir, og það er eitthvað sem t.d. hagfræðingur BSRB hefur tekið undir. Þannig yrði félagslegt jafnræði óháð efnahag og skuldsetningu. Það væri von til þess að þarna værum við að tala um ákveðna samfélagslega sátt um málið. Lánasöfnin ættu að vera betri eftir þessa höfuðstólslækkun og samhliða því gæti verið hægt að bjóða upp á aðra greiðsluaðlögun.

Eins og ég er búin að færa fyrir rök áður ætti svona almenn aðgerð varðandi höfuðstólslækkun að hafa jákvæð áhrif fyrir hagkerfið í heild. Þetta yrði hins vegar aðeins ein leið sem nota mætti til að gjörbreyta skuldastöðu íslenskra heimila til hins betra án teljandi kostnaðar fyrir ríkið. Sambærilegar aðgerðir fyrir fyrirtæki þyrftu svo að fylgja í kjölfarið þar sem megináherslan yrði á jafnræði og gagnsæi, sem því miður hefur tilfinnanlega skort á í aðgerðum ríkis og banka síðustu missiri, því enginn veit raunverulega hvað er að gerast núna varðandi bankana og yfirtöku þeirra á fyrirtækjum víðs vegar í atvinnulífinu.

Kjarninn í málflutningi okkar framsóknarmanna síðasta ár hefur verið að fara þurfi í almennar aðgerðir sem byggja á samvinnu, sanngirni, jafnræði og gagnsæi. Við höfum jafnframt lagt fram ítarlegar tillögur um slíkar aðgerðir og höfum sýnt fram á hvernig hægt er fara í þær án verulegs kostnaðar fyrir ríkissjóð. Slíkar aðgerðir auðvelda einstaklingum og fyrirtækjum að leggja raunhæft mat á stöðu sína og taka í framhaldinu ákvarðanir með aðstoð banka og ráðgafarstofnana um næstu skref. Heimilin þurfa ekki að velta vandanum á undan sér, líkt og með þeim úrræðum sem ríkisstjórnin hefur kynnt, en slíkt getur haft lamandi áhrif á starfsorku, greiðslugetu og greiðsluvilja til langs tíma.

Með almennum aðgerðum sem ekki er of seint að grípa til getum við blásið von í brjósti íslensks almennings um að hann geti af sjálfsdáðum unnið sig úr þeim vanda sem við blasir og lagt sitt af mörkum til að byggja upp nýtt Ísland.