138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir einkunnina að ég bara skilji þetta ekki. Það má vel vera að ég sé svo takmarkaður að ég nái þessu ekki. Mér heyrist fólk tala um að það eigi að taka einhverja peninga úr þessum afskriftarsjóði og dreifa þeim á allan almenning og þar með leysist vandinn. Það eru 10% heimila sem eru í verulega miklum vanda og það er mjög brýnt, frú forseti, að við tökum á þeim vanda. Ég hef aldrei nokkurn tímann sagt neitt annað. Það er mjög brýnt að við sjáum ekki gjaldþrot 10% heimila. Það má ekki. Mér sýnist að hæstv. ríkisstjórn sé nú að vinna að því. En að fara að lækka skuldir hjá fólki sem ræður vel við skuldirnar, þessi 80%. Meira að segja 45% af heimilum í landinu leggja fyrir sem stendur. Könnun hjá Hagsmunasamtökum heimilanna leiddi í ljós að 45% heimilanna eru að leggja fyrir. Þannig að vandinn er ekki meiri en sá og eigi að fara að lækka skuldirnar hjá þeim öllum að óþörfu, þá kostar það. Og ef menn halda að peningarnir detti af himnum ofan, þá er það misskilningur. Það er alltaf einhver sem greiðir. Þeir sem áttu að greiða eru erlendu kröfuhafarnir. Ég fullyrði það að þeim dettur það ekki í hug. Þeir eru búnir að tapa 6.000 milljörðum á Íslandi og þá langar ekki til að tapa meira og síst af öllu vilja þeir sjá að Íslendingar fái lækkun á sínum skuldum á meðan almenningur í Þýskalandi fær ekki lækkaðar skuldir.