138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

4. mál
[16:33]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nú biðja hv. þm. Þráin Bertelsson afsökunar á því að hafa ekki nefnt hann hér, en það er rétt að hann hefur tekið vel í þessar tillögur og það er ánægjulegt að listinn sem maður getur talið upp þegar maður ræðir um þessa tillögu lengist. Fyrir mér er alls ekki útilokað að hafa eitthvert þak á leiðréttingunum. Hugmyndin var sú að þeir sem þyrftu ekki beinlínis á afskriftum að halda mundu halda uppi neyslunni áfram, en auðvitað er alveg hægt að segja að það gildir líka þó það sé þak á upphæðinni.

Ég vil líka þakka hv. þm. Þráni Bertelssyni fyrir að hafa sýnt það hér í verki að koma upp í andsvar og lýsa því yfir að hann vilji leggja þessu lið í nefndastarfinu. Þegar þetta mál var flutt hér síðast þá fór það til efnahags- og skattanefndar en mál hæstv. félagsmálaráðherra, Árna Páls Árnasonar, er í félags- og tryggingamálanefnd, ef ég veit rétt. Það er því svolítið spurning hvort þetta eigi að fara þangað líka en ef það gerir það ekki, þá bara fer það til efnahags- og skattanefndar, en þá þyrfti að vera eitthvert samráð á milli nefnda, af því ég held að það sé mikilvægt að skoða þessi mál samhliða. Ég tel að þessum degi hafi verið vel varið í að fara yfir þetta mál, af því það er nýbúið að mæla fyrir máli hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, þannig að þau geta þá fylgst að í vinnslu hér inni í þinginu.