138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[19:22]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skorti ekkert upp á gamlar tuggur í þessu andsvari hv. þingmanns. Ég tel það vera hlutverk umhverfisráðherra sem og allra annarra ráðherra að gæta að góðum stjórnsýsluháttum. Ég er einfaldlega algjörlega ósammála því að ráðherrann geti skýlt sér á bak við það með þessari ákvörðun sinni að þar hafi verið fylgt góðum stjórnsýsluháttum. Ég er bara algjörlega ósammála því og það er einfaldlega rangt að halda fram þessum málflutningi. Þar verður okkur að greina á, hæstv. frú forseti, mig og hv. þingmann Guðfríði Lilju Grétarsdóttur.

Ég tel að allir sem starfa í stjórnsýslunni eigi að taka ákvörðun á grundvelli upplýsinga, fullra upplýsinga. Ég tel að sú ákvörðun sem lá fyrir hjá fyrri umhverfisráðherra hafi byggst á slíkum sjónarmiðum. Ég tel að það sé mikill tvískinnungur falinn í þeim málflutningi að góðir stjórnsýsluhættir feli í sér að brjóta málshraðaregluna og jafnræðisregluna eins og ég tel að hafi verið gert í þessu máli — í nafni góðra stjórnsýsluhátta. Þetta gengisfellir, svo ég noti orðalag hv. þm. Davíðs Stefánssonar, orðin „góðir stjórnsýsluhættir“. Ég tel að mönnum væri betur sæmandi að segja sína skoðun upphátt og beita henni og þeim brögðum og þeim lagalegu úrræðum sem þeir hafa til þess að koma stefnumálum sínum í framkvæmd. Ég skil ekki af hverju ráðherra í ríkisstjórn gerir það ekki frekar en að vera að fara þessa bakdyraleið. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja það.

Hvað er vandað við það að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, sama hver á í hlut, ætli sér ekki að standa við það sem skrifað hefur verið undir varðandi stöðugleikasáttmálann og það sem gefið hefur verið út í þjóðhagsspá? Ég skil ekki þennan málflutning.

Það er ekki heil brú í að halda því fram að hér sé aðeins um að ræða töf vegna vandaðrar stjórnsýslu. Hér er um mun alvarlegri hlut að ræða en það, frú forseti.