138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

staða landsbyggðarinnar.

[14:21]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur átt sér stað og mæla fyrst gegn því að landsbyggðin sé í rúst. Það er langur vegur þar frá, þar grær mannlífið með ágætum og víða blómstra góðir sprotar, það er gott að búa. Það fer hins vegar ekkert hjá því að viðvarandi átök í landinu hafa á undanförnum mörgum áratugum snúist um átök á milli höfuðborgar og landsbyggðar. Við skulum ekkert horfa fram hjá því að í þeirri umræðu sem alltaf er uppi, ekki síst á þrengingartímum, takast á sjónarmið höfuðbólsins og hjáleigunnar. Það er ekkert hægt að mæla gegn því að í þeim þrengingum sem nú ganga yfir er að sjálfsögðu reynt að færa fjármuni eða styrk frá þeim sem betur standa inn á veikari svæði.

Það er hárrétt sem kom fram hjá fjármálaráðherra hér áðan, á margan hátt fer landsbyggðin betur út úr þeim hremmingum sem ganga yfir íslenskt samfélag í dag. Þeim mun meiri ástæða er til að standa vörð um það sem þó hefur tekist að byggja þar upp á undanförnum árum. (Gripið fram í: Rétt.) Ég held að sé engin ástæða til annars en halda það í heiðri. Hv. þm. Þór Saari hefur orðið vitni að umræðum í fjárlaganefnd um að mönnum þykir víða á landsbyggðinni að sér vegið og sínu samfélagi í því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir. Sumir ganga svo langt að kalla fjárlagafrumvarpið að óbreyttu sóknaráætlun gegn landsbyggðinni. Á margan hátt má finna því stað.

Ég held að það sé full ástæða til þess að gaumgæfa ýmsa þætti inni í fjárlagafrumvarpinu sem betur mættu fara og ganga aðeins hægar um. Ég ætla bara að nefna eitt dæmi því til staðfestingar sem er 300 millj. kr. lækkun á jöfnun námskostnaðar framhaldsskólanema þar sem styrkur fyrir hvern nemanda fer úr 100 þús. kr. niður í 80 þús. kr. Og akstursstyrkur fer úr 60 þúsund niður í 45 þúsund á sama tíma og heimavistir og mötuneyti hækka gjaldskrár sínar. Á sama tíma takast fjölskyldur út um (Forseti hringir.) land á við mikla erfiðleika og reyna að ná endum saman. Þetta er því eitt atriði af mörgum sem ber að gaumgæfa í þessu fjárlagafrumvarpi.