138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

rannsóknir og áætlanagerð í ferðaþjónustu.

48. mál
[15:17]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég fagna þessari framkomnu tillögu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur. Ég tel afar mikilvægt að auka rannsóknir og áætlanagerð í ferðaþjónustu og grundvöllur góðrar landnýtingaráætlunar sem talað var um hér áðan er að sjálfsögðu rannsóknir og úttekt á greininni.

Ég held að landnýtingaráætlun sé grundvallaratriði fyrir framþróun þessarar greinar til þess að ákveða hvaða svæði eigi að hafa forgang í landinu fyrir ferðaþjónustu, hvaða svæði við eigum að taka frá fyrir þessa atvinnugrein og hvernig við eigum að deila henni niður.

Ég brýni hæstv. iðnaðar- og ferðamálaráðherra að leita til þekkingar- og fræðasetra víðs vegar um landið í þeirri vinnu sem fram undan er og vil þar t.d. sérstaklega nefna Háskólafélag Suðurlands og Landnýtingarsetrið þar og Háskólasetrið og fræðasetrið á Höfn, sem býr yfir mikilli þekkingu á þessu sviði og mun sannarlega nýtast í þessum efnum.

Loks vil ég nefna að sóknaráætlun landshluta sem verið er að undirbúa en þar mun ferðaþjónustan gegna afar mikilvægu hlutverki ef fram fer sem horfir.