138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

tenging kvóta við byggðir.

66. mál
[15:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég get bætt við það sem ég sagði áðan að ég tel einmitt mikilvægt nú í því umróti sem við stöndum frammi fyrir, efnahagslegu umróti, þar sem við vitum ekki framtíðarstöðu einstakra fyrirtækja, hvernig þau koma til með að standa af sér t.d. í sjávarútvegi og á fundum með bankastjórum allra viðskiptabankanna hef ég lagt áherslu á að vandlega verði gætt að því að þær aðgerðir sem menn verða að grípa til vegna stöðu einstakra fyrirtækja og aðgerðir bankanna í þeim efnum verði ekki til þess að raska atvinnuöryggi í byggðunum í því ástandi sem nú er. Þannig að menn hugi mjög vel, hvar sem að er komið núna í sjávarútveginum, að standa vörð um öryggi og atvinnuöryggi byggðanna og treysta það enn þá frekar í sessi ef eitthvað er. Ég tek því undir með hv. þingmanni og skil vel áhyggjur hennar og áherslur hversu mikilvægt atvinnuöryggi byggðanna og aðgengi þeirra og viss forgangur að þeirri auðlind sem sjávarútvegurinn er. Ég heiti því að ég skal gera mitt í þeim efnum, frú forseti.