138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

merking kvikmynda áhorfendum til aðvörunar.

65. mál
[15:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðrún Erlingsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Margar kvikmyndir innihalda kynferðislegt ofbeldi. Slíkar myndir eru ekki merktar sérstaklega áhorfendum til aðvörunar að öðru leyti en því að þær eru bannaðar ákveðnum aldursflokkum. Ekki er sjálfgefið að titill eða söguþráður myndar gefi til kynna að í henni komi fyrir kynferðislegt ofbeldi. Þeir einstaklingar sem orðið hafa fyrir þess konar ofbeldi geta því illa varið sig gegn því að upplifa aftur þá skelfilegu atburði sem þeir urðu fyrir. Kynferðisglæpir eru í eðli sínu þannig að þeir skilja eftir meiri skömm og feluleik hjá einstaklingunum en margir aðrir harmleikir og oft á tíðum kjósa þeir að segja ekki frá atburðunum, heldur bera þungbæra reynslu sína í hljóði.

Í þessu ljósi spyr ég hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hvort hún telji til greina koma að setja í lög ákvæði um að skylt sé að merkja ofbeldisfullar kvikmyndir áhorfendum til aðvörunar, sérstaklega kvikmyndir sem innihalda kynferðislegt ofbeldi. Einnig spyr ég ráðherra á hverju hún byggi afstöðu sína.