138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.

[10:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Nú liggur það fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hyggst endurskoða áætlun sína og samtal sitt við Ísland og er löngu kominn tími til. Það stóð til að gera í febrúar og hefur dregist von úr viti. Það er auðvitað fullkomin hneisa að það skuli hafa komið í ljós að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skuli hafa tengst saman með jafnósvífnum hætti og raun ber vitni mál Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar og gerst þar með innheimtumaður fyrir Hollendinga og Breta.

Spurning mín til hæstv. utanríkisráðherra er þessi: Hefur Ísland með formlegum skriflegum hætti mótmælt þessari ráðstöfun og þessu háttalagi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Hafa slík mótmæli verið sett fram skriflega innan stjórnar sjóðsins og til þeirra landa sem aðild eiga að stjórn sjóðsins?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann geti tekið undir þau sjónarmið sem við sjálfstæðismenn settum fram í efnahagstillögum okkar. Það væri ástæða til að fara aftur yfir það samstarf sem við eigum núna við sjóðinn um efnahagsáætlunina og endurskoða hana í ljósi þess bæði hversu mikill tími hefur liðið síðan hún var sett fram upphaflega og hvaða breytingar hafa átt sér stað hér á Íslandi og erlendis á þeim tíma. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á því að meðal annars hafa stjórnarliðar tekið undir þessa skoðun okkar sjálfstæðismanna. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir lýsir sömu sjónarmiðum og komu frá sjálfstæðismönnum, að hluta til í það minnsta, að nauðsynlegt sé að endurskoða þessa áætlun. Það er áhugavert að ræða þetta núna vegna þess að við höfum tækifæri til að koma slíkum hugmyndum á framfæri þegar stjórn sjóðsins tekur málefni Íslands til athugunar.