138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

snjómokstur í Árneshreppi.

[10:59]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í Icesave-viðræðurnar sem eiga sér stað undir þessum lið (Gripið fram í.) en ég ætla hins vegar að fara á næsta bæ við sem er snjómokstur, gríðarlega stórt og mikilvægt mál.

Mig langar að beina fyrirspurn með smáformála til hæstv. samgönguráðherra er varðar snjómokstur í einum mikilvægasta hreppi landsins, Árneshreppi. Okkur finnst sjálfsagt að komast allra leiða okkar frá A til B alla daga en því er ekki svo farið alls staðar á landinu. Ég hygg að íbúar í þessum hreppi eigi fullan rétt á því að komast leiðar sinnar og ég tel að þetta sé mál sem brennur mjög á íbúum þess hrepps þrátt fyrir að þeir séu ekki nægilega margir til að geta látið heyra jafnhátt í sér og íbúar stærri sveitarfélaga.

Það hefur verið svo undanfarin ár að mokað hefur verið tvisvar í viku í Árneshreppi fyrir áramót. Eftir áramót hefur þetta verið samkvæmt geðþóttaákvörðun og með hópefli íbúanna sem hafa barið í gegn mokstur kannski einu sinni í mánuði. Þessu lýsa íbúar sveitarfélagsins sjálfir með þessum hætti: Þetta er spurning um læknisþjónustu og þýðir gríðarlega hækkun aðfanga fyrir íbúa sveitarfélagsins. Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvort hann muni ekki tryggja það í krafti stöðu sinnar að mokað verði tvisvar í viku bæði fyrir og eftir áramót í Árneshreppi í allan vetur.