138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:01]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi að það væri svo einfalt að ég gæti sagt að málinu væri endanlega lokið, með ákvörðun Alþingis og höfnun Hollendinga og Breta á fyrirvörunum með ósk um að taka ákveðinn hluta þeirra væri málinu lokið, við gætum samþykkt það með 63 atkvæðum ef það væri þannig. Því miður er málið ekki svona einfalt, heimurinn er ekki svona einfaldur. Það er bara þannig sem málið snýr við mér. (Gripið fram í.) Ég tek við verkefnum eins og hver annar þingmaður sem formaður nefndar vegna þess að það er komið nýtt mál inn til þingsins. Það er breyting á máli sem hér var fyrir stuttu. Það eru mörg dæmi um að Alþingi Íslendinga hafi breytt lögum jafnvel eftir skamman tíma. (Gripið fram í.) — Ekki ríkisábyrgðina eða önnur mál sem hefur þurft að betrumbæta eða hagræða með einhverjum hætti vegna þess að málið hefur ekki gengið eftir með eðlilegum hætti. Ég harma að málið hafi ekki gengið í gegn eins og það var. Hvað gerum við þá? Við getum ekki hent málinu, því miður. (Gripið fram í.) Ég mundi taka þátt í því ef það væri hægt. Ég hef ekki sannfæringu fyrir því að einhverjar aðrar leiðir séu færar, eins og fullyrðingar hafa verið um (Forseti hringir.) hér. Þess vegna hef ég tekið það verkefni að mér að við reynum að finna lausn á þessu máli. Um það snýst málið.