138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek alveg heils hugar undir með hv. þingmanni þar sem hún segir að við þurfum vera í samvinnu við Breta og Hollendinga til að ná aftur fénu okkar. Það er einmitt það sem við eigum að beina kröftum okkar að. Á meðan ástandið er svona eru nokkrir tugir einstaklinga búnir að ræna þjóðina. Hvað erum við að gera hér? Við erum að deila hvert við annað um hver ber meiri ábyrgð eða minni ábyrgð, þessi flokkur, hinn flokkurinn. Ætli útrásarvíkingunum sé skemmt þegar þeir horfa á það sem er að gerast í þeim hjólförum sem við erum í? Við eigum að sammælast með þeim sem hafa mjög mikla reynslu, um að elta þetta uppi, að reyna að ná þessu fé til baka, því að fyrr verður þjóðin ekki sátt. Og það var einn af þeim fyrirvörum Alþingis sem var settur inn og er reyndar enn þá inni og ég tek alveg heils hugar undir það.

En það er líka mjög mikilvægt ef eitthvað er eftir að það komi til baka. Síðan er mjög dapurlegt að rannsóknarskýsla Alþingis skuli dragast. Það er mjög slæmt og mér er ekki kunnugt um að menn hafi gripið til einhverra aðgerða til að reyna að stoppa þetta af, ef það er þá hægt. Við þurfum því að einhenda okkur í þessa vinnu og reyna að ná verðmætum til baka þannig að menn skili því til baka til íslensku þjóðarinnar ef það er eitthvað sem hægt er að ná af þeim. Það er mikilvægt að það verði gert. Auðvitað eigum við að nýta samvinnu og sambönd við Breta og Hollendinga sem við höfum þar. En varðandi þá yfirlýsingu sem ég hélt að hv. þingmaður væri að vísa í um lagalega fyrirvarann, ef niðurstaðan yrði önnur mundu þeir koma og ræða þetta við okkur þannig að ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki svarað því sem ég átti að svara.