138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[13:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Markmið þessara laga er að hraða endurreisn íslensks efnahagslífs í kjölfar banka- og gjaldeyrishrunsins haustið 2008 sem leitt hefur til mikilla erfiðleika hjá heimilum og fyrirtækjum landsins við að standa undir þeirri auknu greiðslubyrði sem efnahagshrunið leiddi óhjákvæmilega yfir landið.

Stjórnvöld brugðust við þessum vanda að hluta til í vor með lögum um opinbera greiðsluaðlögun og greiðslujöfnun en hafa unnið að því í framhaldinu að ná breiðri sátt um aðgerðir sem ná til þeirra aðila sem málið snertir, svo sem aðila vinnumarkaðarins, fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða, hagsmunasamtaka, stjórnarandstöðunnar og fleiri. Margir hafa komið að úrlausn þessa flókna úrlausnarefnis. Mjög mikilvægt er fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs að komið sé jafnvægi á greiðslugetu og greiðslubyrði einstaklinga og fyrirtækja svo komast megi hjá gjaldþrotum og greiðslufalli sem mundi leiða til enn dýpri kreppu.

Þær aðgerðir sem boðaðar eru í þessu frumvarpi eru almennar aðgerðir sem ná til allra einstaklinga sem eru með verðtryggð fasteignaveðlán og er greiðslubyrðin færð aftur fyrir hrun. Þarna er verið að mæta skuldurum á jafnræðisgrundvelli en jafnframt er þeim lántakendum sem telja sig ekki þurfa á þessu úrræði að halda gert kleift að segja sig frá því. Í því sambandi tel ég mjög brýnt að tryggja upplýsingagjöf um greiðslujöfnun þannig að einstaklingar geti leitað upplýsinga um möguleg áhrif hennar á lán og lánstíma og heildarendurgreiðslu lánsins. Þessar almennu aðgerðir duga ekki öllum og mun sértæk skuldaaðlögun nýtast þeim sem komnir eru í verulegan skuldavanda, þ.e. að farið sé í frjálsa nauðasamninga. Enn fremur stendur lántakendum sem eru með gengistryggð húsnæðis- og bílalán til boða greiðsluaðlögun og greiðslujöfnun við banka og eignaleigufyrirtæki sem byggist á samkomulagi við þessa aðila af hálfu stjórnvalda.

Gífurlega mikilvægt er að breið samstaða náist um þetta mikilvæga hagsmunamál fjölda einstaklinga og fyrirtækja svo hraða megi endurreisn íslensks efnahagslífs og komið sé til móts við fjölda einstaklinga sem eru í dag í fjárhagslegum erfiðleikum og hafa með þessum aðgerðum möguleika á að standa við skuldbindingar sínar og að endurskipuleggja fjármál sín. Ég styð því heils hugar þessar aðgerðir og tel þær stórt skref fram á við. Gott samstarf og samstaða var í félags- og tryggingamálanefnd um að hraða þyrfti þessu brýna hagsmunamáli fjölda heimila og fyrirtækja þó að vissulega hefði verið gott að meiri tími hefði gefist til umfjöllunar um þetta stóra viðfangsefni sem tekur á skuldavanda heimila og fyrirtækja í kjölfar hrunsins. Enn fremur vil ég undirstrika nauðsyn eftirlitsnefndar með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar.

Einnig skipar ráðherra starfshóp með fulltrúum allra þingflokka, sérfræðingum og fulltrúum hagsmunaaðila. Það er mjög þarft og starfshópnum er ætlað að skoða árangur laganna og skoða þau álitaefni sem upp kunna að koma og skila ráðherra tillögum að lagabreytingum eigi síðar en 1. mars 2010. Ég fagna því þessu frumvarpi og tel brýnt að það verði að lögum 1. nóvember næstkomandi.