138. löggjafarþing — 16. fundur,  23. okt. 2009.

þjónusta Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja.

79. mál
[15:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu Erlingsdóttur fyrir framsöguna en ég er einn af meðflutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu. Eins og allir vita er heilbrigðisþjónusta gríðarlegt grundvallaratriði í allri samfélagsgerðinni og ekki síst þar sem landfræðilegar aðstæður eru með þeim hætti sem þær eru í Vestmannaeyjum.

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir samfélagið að við nýtum þessar stofnanir vel og þá sérþekkingu sem þar er. Tækifærin sem við fáum, landsmenn allir, við miklar samgöngubætur tengjast þessu að því leyti að nú er í byggingu og er risin Landeyjahöfn sem kemur til með að vera gríðarleg samgöngubót fyrir Eyjamenn og við þá miklu samgöngubót opnast mikil og ný tækifæri. Eitt af þeim er að nýta betur þær stofnanir og þá þjónustu sem er í Vestmannaeyjum. Þar má skoða bæði Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja og aðrar opinberar stofnanir og síðast en ekki síst íþróttafélögin, þau miklu íþróttamannvirki sem eru í Eyjum.

Virðulegi forseti. Það má segja að með tilkomu Landeyjahafnar opnist á möguleika fyrir útrás þjónustu úr Vestmannaeyjum. Markaðssetning á þeirri þjónustu beinist ekki eingöngu að þeim sem eru rétt hinum megin við hornið, þ.e. Rangæingum, heldur landinu öllu og ekki síst heimsbyggðinni allri. Þarna eru mikil sóknarfæri sem við skulum nýta okkur og það er gríðarlega mikilvægt að við séum vel undirbúin þegar höfnin verður tekin í notkun í júní á næsta ári. Stýrihópur um Landeyjahöfn sinnir þessu verkefni og heldur utan um byggingu hafnarinnar og allar framkvæmdir þar. Stýrihópurinn hefur unnið mikið verk á undanförnum árum og er enn að störfum og kemur til með að fara í skoðunarferð um hafnarsvæðið í næstu viku og það er í rauninni undravert hversu vel verkið allt saman hefur gengið. Ég tel að við sem hér sitjum þurfum að vera vel meðvituð um þá kosti sem þarna koma og opnast og nýta þau tækifæri og grípa þau sem þarna eru.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að þingsályktunartillagan fái stuðning í þinginu vegna þess að það er mikilvægt að við horfum aðeins fram í tímann, að við undirbúum okkur og við grípum öll tækifæri sem eiga að stuðla að því að styrkja þjónustu á landsbyggðinni og gera þær einingar sem þar eru, t.d. í heilbrigðisþjónustunni, sterkari, tryggja þær og festa þær í sessi. Það er mikill mannauður í þessum stofnunum og sérstaklega í þeirri stofnun sem hér um ræðir, Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja, og á þeim kostum skulum við byggja. Það er einn af okkar helstu styrkleikum hvað við eigum gott og vel menntað fólk og við skulum nota þennan hornstein sem góðan grunn að þeirri framtíð sem við ætlum að byggja hér á landi og ekki síst til að tengja betur land og Vestmannaeyjar.