138. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2009.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu. Ég vil taka fram í upphafi, virðulegur forseti, að ég er 1. flutningsmaður að málinu en það eru þingmenn allra flokka á því einnig. Því má segja að málið njóti þverpólitísks stuðnings. Fyrir það vil ég sérstaklega þakka að þingmenn hafa tekið mjög vel í að vera meðflutningsmenn að málinu.

Í tillögunni er lagt til að hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra hafi forgöngu um að gerð verði landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu þannig að unnt sé að taka vel á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem ferðast um hálendið án þess að ganga of nærri því. Það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, að það er mjög ankannalegt hvað við í þinginu höfum látið ferðamálin lítið til okkar taka. Ferðaþjónustan er í þriðja sæti þegar við skoðum hvaðan Íslendingar fá gjaldeyristekjur sínar. Í fyrsta sæti er stóriðjan með um 30% af gjaldeyristekjunum, í öðru sæti eru sjávarafurðirnar með 26,3% og í þriðja sæti eru tekjur af erlendum ferðamönnum sem eru um 17%. Það er eiginlega stórmerkilegt hvað þingmenn eru viljugir til að ræða bæði stóriðju- og sjávarútvegsmál en ekki ferðamálin. Ég tel að við verðum að gera mikla bragarbót þar á og þetta mál er einmitt til þess fallið að styrkja ferðaþjónustuna og efla alla umgjörð í kringum hana.

Í greinargerðinni segir, virðulegi forseti, að vinna eigi þessa landnýtingaráætlun í samráði við hagsmunaaðila. Þar eru nefnd Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa, Ferðamálaráð, Ferðamálasamtök Íslands og aðrir hagsmunaaðilar í ferðaþjónustunni eftir því sem við á, Umhverfisstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins og Skipulagsstofnun. Einnig er kveðið á um að nauðsynlegt sé að leita til sérfræðinga, svo sem í ferðamálafræðum, við undirbúning og gerð þessarar áætlunar. Markmiðið er sett á árið 2015, að landnýtingaráætlunin eigi að vera tilbúin það ár. Það styttist nú verulega í það ártal, virðulegi forseti.

En af hverju þarf að vinna þetta svona hratt og af hverju í ósköpunum þarf yfirleitt að vinna að svona áætlun? Jú, það er nú svo að ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mjög mikið síðustu áratugi. Ef við lítum til baka getum við séð að á síðustu fimm árum hefur ferðamönnum fjölgað um tæplega 10% á ári. Þetta er árlegur vöxtur upp á um 10%. Við héldum að það yrði kannski fækkun í ár en svo virðist ekki vera. Nýjustu fregnir eru ef maður skoðar bara ágúst, þá er 12% aukning frá ágúst í fyrra til ágústmánaðar í ár. Hingað streymir því mikill fjöldi ferðamanna. Á síðasta ári var þessi fjöldi 502 þúsund ferðamenn plús 60 þúsund sem komu með skemmtiferðaskipum. Áætlað er að árið 2016 eða í kringum það ártal verði um ein milljón ferðamanna á Íslandi og talið jafnvel að það verði fleiri erlendir ferðamenn á vegum landsins að sumri til en Íslendingar. Það er svolítið merkilegt, virðulegur forseti. En til að taka á móti öllum þessum fjölda án þess að skemma viðkvæma náttúru, hvað þá upplifun ferðamannanna sjálfra, þarf að vinna áætlun.

Við erum að selja náttúruna, virðulegur forseti, það er ímyndin sem við erum að selja til erlendra aðila. Ísland er kynnt með þeim hætti að hér sé náttúrufegurð mikil, hér sé hreint og fallegt og að hér séu ósnortin víðerni. Við getum séð það samkvæmt könnunum að 76% ferðamanna komu einmitt til að upplifa þetta, upplifa náttúruna. Það má líka koma því á framfæri að 26% ferðamanna fara í Landmannalaugar. Þetta er ótrúlega há tala. 75% fara til Gullfoss og Geysis. Ljóst er að hálendið er mjög mikilvæg auðlind og órjúfanlegur hluti af því aðdráttarafli sem ferðamenn sækjast eftir.

En til þess að forðast óafturkræfar breytingar á náttúrunni þarf að rannsaka svokölluð þolmörk ferðamennsku. Hvað þola einstakir staðir marga ferðamenn án þess að staðirnir trampist niður eða eyðileggist? Eða hin félagslegu þolmörk, hvað þola staðirnir mikinn fjölda áður en fólk fer að upplifa að það sé ekkert gaman að koma þangað og fer að forðast slíka staði í framtíðinni? Það segir: Hér er allt of margt fólk, ég vil ekki koma hingað aftur. Þetta þarf að rannsaka miklu meira en gert hefur verið.

Ég vil nefna að Samtök ferðaþjónustunnar hafa svolítið rætt þessi mál. Á fundi sínum 25. febrúar ályktuðu þau samtök gegn t.d. uppbyggðum vegi yfir Kjöl. Af hverju gerðu þau það? Jú, af því að slík framkvæmd mundi gjörbreyta upplifun ferðamanna. Þau vildu sem sagt ekki að hálendið yrði svipt þeim einkennum sínum, öræfastemningu, og telja að það hafi mikið gildi fyrir þjóðina og vilja því ekki spilla þeirri upplifun. Mér fannst þetta ný hugsun og skemmtileg, að sjá það að Samtök ferðaþjónustunnar skyldu álykta á þessa leið.

Varðandi víðernin er það skilgreint samkvæmt lögum hvað er svokallað ósnortið víðerni á Íslandi. Ósnortið víðerni samkvæmt lögum er að það þarf að vera landsvæði sem er a.m.k. 25 ferkílómetrar og a.m.k. fimm kílómetrar þurfa að vera í næsta manngert virki, manngert hús eða manngert eitthvað. Það sem stenst þessar kröfur er ósnortið víðerni. Það eru ferðamenn sem sækja hingað vegna þessara ósnortnu víðerna. Ef við skoðum og skilgreinum hvar þessi víðerni eru og kortleggjum þau sjáum við, virðulegi forseti, að víðernin eru, ef við tökum jöklana frá, 31% landsins. Er þetta mikið eða er þetta lítið? Í öllu svona vestrænu samhengi er þetta mikið. Danmörk, þar er örugglega 0% víðerni, þar er allt „snert“, þar eru hvergi fimm kílómetrar í næsta hluta eða 25 ferkílómetra ósnortið heildarsamhengi einhvers landsvæðis.

Það er tiltölulega há tala, 31% án jöklanna, ég tek fram að þetta er hærri tala ef jöklarnir eru inni, fer þá upp í 42%, en þetta er mjög mikil sérstaða. Að mínu mati þarf að vernda þessa sérstöðu og við þurfum að gera það skipulega og átta okkur á því að við getum nýtt þá sérstöðu til að afla okkur tekna. Þetta togast auðvitað svolítið á við hugmyndir um t.d. virkjanaframkvæmdir. Þetta verðum við að fara í gegnum og skoða miklu betur en við höfum gert.

Nokkrir aðilar hafa verið að rannsaka þessi mál. Ég vil nefna að árið 2007 veitti Tækniþróunarsjóður styrk til að gera landnýtingaráætlun á suðurhluta hálendis Íslands. Verkefnið vann Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent í ferðamálafræðum við Háskóla Íslands, ásamt Rögnvaldi Ólafssyni, dósent í eðlisfræði og forstöðumanni Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands, og Rannveigu Ólafsdóttur, dósent í ferðamálafræðum Háskóla Íslands og sérfræðingi við Rannsóknamiðstöð ferðamála. Þetta verkefni var mjög spennandi. Þarna var verið að rannsaka þolmörk og hvernig væri hagstæðast að nýta hvert svæði á suðurhluta hálendisins. Skoðað var hvar væri hægt að hafa hópana. Hvar eiga gönguhóparnir að vera, hvar eiga hestahóparnir að vera, hvar á jeppafólk að vera og fólk á vélsleðum o.s.frv.? Þetta verkefni fékk einungis forvarnastyrk, en aðalverkefninu var hafnað. Mér finnst þetta sýna svolítið hvað við erum skammsýn, virðulegur forseti. Þarna kemur verkefni sem er svo sannarlega þörf á að vinna. Það fær bara undirbúningsstyrk en ekki aðalstyrkinn. Að vísu komu Ferðamálastofa og Vegagerðin inn og úthlutuðu að hluta til í þetta verkefni, þannig að hægt var að styrkja verkefnið á Kili.

Það kostar að rannsaka og það kostar að gera áætlanir. Ég vil því nefna að núna er verið að skoða tekjuöflun. Það er í stefnu ríkisstjórnarinnar að skoða svokölluð umhverfisgjöld. Ég fagna því mjög af því ég tel að það verði að taka einhvers konar gjöld af ferðamönnum. Núna er svo mikill straumur hingað og miklar tekjur að koma inn. Það koma 400 milljónir á dag, virðulegur forseti, í gegnum ferðaþjónustuna, þannig að nú er tími til þess að taka umhverfisgjöld. Það er einungis spurning um hvers konar gjöld. Ég læt það liggja á milli hluta í bili hvernig það verður gert en er tilbúin til að skoða flesta hluti í því sambandi.

Ég vil nefna dæmi um af hverju þetta er mikilvægt. Við skulum velja Hakið á Þingvöllum, upplýsingamiðstöðina Hakið. Dæmi eru um að þangað komi 1.800 manns á sömu mínútunni, á einni mínútu, sérstaklega þegar stóru farþegaskipin eru í Reykjavíkurhöfn. Þó reynt sé að dreifa rútunum — það eru dæmi um að eitt farþegaskip þurfi 95 rútur til að þjónusta t.d. Gullfoss- og Geysishringinn — og verið sé að skipuleggja að þetta dreifist, þá eru samt dæmi um 1.800 manns á Hakinu. Þar eru sjö salerni, verða 14 á næsta ári og 21 skilst mér á árinu þar á eftir. En þetta sýnir hvað þarf að styrkja innviðina mikið. Við verðum að geta tekið á móti slíkum hópi. Og hver á að borga þetta? Að mínu mati á ekki hinn almenni skattgreiðandi á Íslandi að borga þetta. Ferðamennirnir sjálfir eiga að borga. Þess vegna verðum við að taka gjöld.

Ég vil líka nefna að Samtök ferðaþjónustunnar samþykktu á aðalfundi sínum 2007 að skora á stjórnvöld að vinna svona landnýtingaráætlun eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu. Þau segja, virðulegur forseti, mikilvægt og að bráðnauðsynlegt sé varðandi nýtingu auðlinda, náttúruauðlindanna, til ferðaþjónustu, að kortleggja slíka hluti til að hægt sé að undirbúa fjárfestingu í innviðum og markaðsstarfi. Þetta er skref númer eitt, að gera áætlanir. Númer tvö er síðan að fjárfesta í innviðum og markaðsstarfi. Það er svo brýnt að samþykkja þetta mál til að við getum nú farið að byggja upp skynsamlega ferðaþjónustu til framtíðar.

Ég vil nefna að margir hafa sýnt þessu skilning, t.d. var fjallað um málið í leiðara Morgunblaðsins fyrir stuttu af því að umræðan um áætlanagerð hefur verið mjög mikil í sjávarútvegi og hún er mikil í stóriðjunni. Rannsóknir um rammaáætlun vatnsafls og jarðvarma kostar hundruð milljóna ef ekki milljarða, allar þær rannsóknir. Ég held að Hafrannsóknastofnun sé að taka til sín mjög háar upphæðir á fjárlögum næsta árs. Heilu rannsóknastofnanirnar eru í kringum þessar greinar en allt of lítið í ferðaþjónustunni, nánast ekkert. Þetta er algjörlega með ólíkindum, virðulegur forseti. Leiðari Morgunblaðsins setti þetta svo skemmtilega upp og spurningin var: Fugl eða ferðamaður. Það er nefnilega búið að rannsaka mjög mikið í sambandi við fugla en nánast ekkert við ferðamenn. Þessu þurfum við að breyta.

Ég vil taka það fram líka að ég held að stjórnvöld séu svolítið að vakna af þeim svefni. Við áttum orðastað um þessa áætlanagerð, rannsóknir og áætlanagerð í ferðaþjónustu fyrir stuttu, sú er hér stendur og fleiri þingmenn og hæstv. ráðherra ferðamála, hæstv. ráðherra Katrín Júlíusdóttir. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að hún væri mjög jákvæð gagnvart því einmitt að fara í þetta verkefni, fara í rannsóknir og áætlanagerð í ferðaþjónustunni og ætlaði að beita sér fyrir því að það yrði skoðað hvernig væri hægt að hefja það starf. Ég fagna því sérstaklega.

Ég vona, virðulegur forseti, að við berum gæfu til að skoða þetta mál í nefndum þingsins og svo verður að mínu mati að samþykkja svona mál af því það er eiginlega, ég ætla að leyfa mér að segja — ég ætla ekki að taka mjög djúpt í árinni, en það er eiginlega hneyksli, það er eiginlega hneyksli hvað við erum búin að gera litlar áætlanir í ferðaþjónustunni. Þetta land er svo merkilegt, það er svo dýrmætt, fólk vill koma og skoða það, en við megum ekki taka á móti fólki og gera það bara hipsumhaps, virðulegi forseti. Hér þarf að skipuleggja. Það þarf að dreifa fólkinu. Það þarf að ákveða hvort við séum jafnvel komin að þolmörkum á ákveðnum stöðum. Þar hef ég áhyggjur af Landmannalaugum. Því miður hafa rannsóknir sýnt og viðtöl að sumir sem hafa komið þangað vilja ekki koma þangað aftur og segja: Hér er bara allt of margt fólk, ég vil ekki koma hingað aftur, ég fer bara eitthvert annað, ég ætla ekki aftur til Íslands eftir þessa reynslu. Þetta er auðvitað svolítið leiðinlegt að heyra. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að í ýmsum öðrum ríkjum er hreinlega settur kvóti á staði: Við tökum á móti X mörgum í hverri viku eða hvernig sem það nú verkast, svo er bara sagt: Hér er uppselt!

Ég er ekki að segja að við séum komin að þeim mörkum en við þurfum samt að gera okkur grein fyrir því hvers konar ferðamenn við erum að fá, hvað vilja þeir fá og getum við orðið við óskum þeirra? Það er nefnilega ekki víst að við viljum fá hingað ferðamenn sem ætla sér að sitja í bíl og keyra upp að hverjum einasta stað og þurfi ekki að labba nema eitt skref til að sjá staðinn. Ég held að við eigum miklu frekar að gera út á meira af umhverfisvænni ferðamennsku þar sem fólk er að leita að ævintýrum, skoða fallega náttúru, takast á við umhverfið og geti átt hér skemmtilegar ferðir án þess að verða fyrir miklum vonbrigðum. Við erum að selja náttúru Íslands og þá verðum við að geta boðið upp á að fólk sjái hana í sínu besta umhverfi eins og hægt er.