138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra fyrir að taka vel í það að endurskoða það að fela dómstólaráði að ákveða hvar dómstólarnir eða þinghárnar verði staðsettar og jafnframt taka undir með ráðherranum hæstvirtum að nefndin komi til með að fara vel yfir málið og skoða þetta vel. Ég hef miklar efasemdir um að þessi sparnaður nái, vegna þess að við erum að tala um í þessu frumvarpi að sjö dómstjórar lækki í launum um 20 þús. kr. hver á mánuði að mínu viti, frú forseti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að á hverri þinghá verði einum dómara falið að hafa einhvers konar umsýslu með því að stýra því hver fær hvaða málum úthlutað. Það hlýtur að eiga greiða fyrir það, þannig að sparnaðurinn verður þá væntanlega minni en 20 þús. kr. á mann. Auk þess ef það á að vinna þetta þannig að dómararnir ferðist á milli umdæma, þá skapast við það verulegur ferðakostnaður sem kemur til með að (Forseti hringir.) kosta ríkissjóð umtalsverðar fjárhæðir.