138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

kosningar til Alþingis.

102. mál
[19:34]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu. Mig langar að spyrja hv. þingmann, sem hét að mér skildist heils hugar stuðningi sínum og Framsóknarflokksins við frumvörpin: Er þessi stuðningur í boði þótt aðeins sé stigið hænufet í framfaraátt, í lýðræðisátt, að þessu sinni? Eða er þessi stuðningur bundinn því skilyrði að við stígum skrefið til fulls og innleiðum hér frjálst val milli lista?

Ég viðurkenni að ég talaði svolítið harkalega um stjórnmálaflokka hér áðan. Ég sagði að þeir hefðu kverkatak á lýðræðinu sem við þyrftum að losa. Mér er fúlasta alvara með það og ég tek ekkert til baka af því. Hins vegar viðurkenni ég að stjórnmálaflokkar þjóna stóru hlutverki í þjóðfélaginu. Stjórnmálaflokkar eiga að vera umboðsaðilar lýðræðis, lýðræðishugmynda, en þeir eiga ekki að hafa einkaumboð á lýðræðinu eins og þeir hafa núna. Einkaumboð samræmist ekki nútímahugmyndum um lýðræði, það er forneskjan ein og helber.

Ég vil að lokum beina máli mínu til hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og hvetja hana til að styðja þetta frumvarp eingöngu sé skrefið stigið alla leið.